138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stjórnarskipunarlög.

469. mál
[14:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til stjórnarskipunarlaga um að breyta kjördæmaskipun þannig að landið verði eitt kjördæmi. Þetta er náttúrlega gömul umræða og hefur átt langan aðdraganda. Menn blanda inn í þetta atkvæðavægi milli kjördæma. Það var fundin ákveðin lausn á því á sínum tíma þegar tekin voru upp sex kjördæmi, að það mætti aldrei vera meira en tvöfalt, það var fjórfalt áður. Menn náðu meira lýðræði að því leyti. Ég hef alltaf verið á móti mismunandi atkvæðavægi en féllst á það á sínum tíma að þetta væri gott skref. Það má vel vera að við þurfum að skoða það aftur. Síðan koma líka þröskuldar inn í umræðuna. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir 3% þröskuldi. Þar sem þingmenn eru 63 er hann eðlilega 1,6% vegna þess að það er 1:64. Það er þröskuldur. Sá sem nær ekki því fylgi fær engan þingmann af þessum 63 ef landið væri eitt kjördæmi. Núna er það þannig með kjördæmin, Reykjavík norður með 11 þingmenn, þar er 8% þröskuldur til að komast inn, það er 1:12, og Reykjavík suður sömuleiðis. Í Norðaustur- og Suðurkjördæmi er 9% þröskuldur og í Norðausturkjördæmi er 10% þröskuldur. Í Suðvesturkjördæmi er 7,7% þröskuldur til að komast inn. Þannig að flokkur sem hvergi nær 7,7% kemur ekki manni að. Þetta er nokkuð hár þröskuldur. Þetta er eitt sem er kannski ólýðræðislegt við núverandi kerfi. Þetta er sem sagt umræðan um þröskuldana.

Eftir því sem þröskuldarnir eru hærri þeim mun erfiðara er fyrir litla flokka að komast inn en hins vegar hefur verið sagt að það sé jákvætt því að það hindrar það að það sé mjög mikið af litlum flokkum sem stundum valda ákveðinni óreiðu. Það hefur sýnt sig í sumum þingum að það er varla hægt að mynda ríkisstjórn út af óreiðu, sem er heldur ekkert voðalega æskilegt. Við erum sem sagt með hérna 8–10% þröskuld innbyggðan í núverandi kerfi.

Svo er það spurningin um einmenningskjördæmi á móti einu kjördæmi. Einmenningskjördæmi tíðkast í Bretlandi og eru mikill lýðræðishalli. Hvers vegna? Vegna þess að flokkur sem í öllum kjördæmum nær meiri hluta — ef það eru þrír flokkar að keppa og einn flokkurinn nær meiri hluta í öllum, segjum bara 35% í öllum, fær hann alla þingmennina eins og þeir leggja sig. Í Bretlandi kemur í ljós að það er eiginlega nánast útilokað fyrir frjálslynda að komast nokkurn tímann inn í stjórn, af því að þeir lenda alltaf undir í svo mörgum kjördæmum. Þannig að einmenningskjördæmi eru slæm en þau hafa þann kost að persónan er kjörin. Það eru persónur kjörnar sem þýðir það að þingið verður með mjög sterka persónuleika.

Svo eru það hinar öfgarnar, landið allt eitt kjördæmi, þar gerist það að persónurnar hverfa. Í dag erum við með í hverjum flokki, eða stærri flokkunum, sex þingmenn sem eru forsvarsmenn flokksins í viðkomandi kjördæmi. Þeir hafa ákveðið vægi. Þeir eru sjálfstæðir. Þeir eru sjálfstæðir í sínu kjördæmi og þeir eru sjálfstæðir innan flokksins. Flokksræðið minnkar. Þegar það er einmenningskjördæmi er ekkert flokksræði eða nánast ekki. Í Bretlandi getur ekki verið mikið flokksræði því að menn eru bara kosnir út á sjálfan sig í viðkomandi kjördæmi. Þannig að flokksræðið er nánast ekkert í Bretlandi en í landi sem er eitt kjördæmi, sem býr við fullkomið lýðræði að því leyti að þar eru öll atkvæði jöfn og allt slíkt, mun flokksræðið vaxa alveg gífurlega, vegna þess að það verður bara einn maður efstur á hverjum lista og hann mun hafa heilmikið að segja, hann verður miklu sterkari en í núverandi kerfi. Við getum bara tekið Samfylkinguna eða Sjálfstæðisflokkinn eða hvern af þessum stærri flokkum, þar eru mjög margir sjálfstæðir einstaklingar sem eru efstir í sínu kjördæmi. Þetta er nú ekki alveg svona einfalt eins og menn vilja vera láta.

Það skemmtilega er, frú forseti, að við kjördæmaskipunina síðast, eða breytinguna, var fundin millileið þarna á milli. Á milli þess að hafa landið allt í einmenningskjördæmum og hins vegar að hafa landið allt sem eitt kjördæmi. Það var fundin millileið að vera með sex kjördæmi nokkurn veginn jafnstór. Það var lögð áhersla á að hafa þau nokkurn veginn jafnstór til að hafa þröskuldana sömu. Þá gerðist það skrýtna að Reykjavík er tvö kjördæmi, sem er afskaplega skrýtið og allt að því asnalegt í augum margra, sérstaklega þegar maður fer sem þingmaður Reykjavíkur í prófkjör og fer í eitt prófkjör en getur svo endað í hvoru kjördæminu sem er eftir tilviljun nánast. Þetta er ekki alveg svona einfalt.

Ég skil alveg vilja þeirra sem vilja hafa landið allt eitt kjördæmi. Ég hef hlustað á umræðuna. Ég hlustaði líka á umræðuna í þjóðfélaginu um það að þetta muni auka lýðræðið og allt slíkt, en það koma þessir agnúar upp, þá vex flokksræðið. Hvað er til ráða? Það er t.d. að vera með sterkari prófkjör þannig að allir flokkar þurfi að tilkynna fjórum mánuðum fyrir kosningar að þeir ætli að bjóða fram, sem náttúrlega minnkar lýðræðið pínulítið, en síðan verði sameiginlegt prófkjör allra flokka. Þá velur kjósandinn einn lista og raðar innan hans í einu sameiginlegu prófkjöri. Hugmyndin sem kom fram í vor var að gera þetta á kjördag en þá er búið að flytja prófkjörskosninguna inn í kosningar til Alþingis. Þannig að einstaklingarnir innan hvers flokks eru að berjast fram að kjördegi og geta ekki almennilega barist fyrir hugsjónum síns flokks. Þannig að það er ekkert voðalega sniðugt að flytja prófkjörið inn í kosningarnar sjálfar.

Ég hef lagt til að menn ættu að skoða það að hafa prófkjör allra flokka samtímis, svona þremur, fjórum mánuðum fyrir kosningar. Þá eru sárin gróin sem myndast í prófkjörum þar sem einstaklingar slást og menn geta svo farið í kosningar með raðaðan lista á eftir sem kjósendur almennt hafa valið. Menn geta þá ekki leikið þann leik, eins og gerðist á Siglufirði þar sem 106% kusu í prófkjöri, þ.e. einhverjir kusu örugglega í tveimur flokkum. Þannig að það eru ýmsar leiðir til.

Svo er til skemmtileg hugsun eins og Þjóðverjar eru með þar sem þeir eru bæði með flokkakjör og persónukjör. Ég vildi gjarnan að hv. stjórnarskrárnefnd, sem fær það til skoðunar, liti aðeins á það. Við getum eins haft 40 þingmenn sem kosnir eru með þessum hætti sem hér er talað um, landið allt eitt kjördæmi. Þeir yrðu þá sterkir sem slíkir en síðan getum við haft 23 sem almenningur í sömu kosningu kysi úr þeim nöfnum sem eru á listum allra flokka og þyrfti ekki endilega að binda við það að kjósa sama flokkinn og mann í þeim flokki. Menn gætu t.d. farið og kosið einn lista, t.d. D-listann af því að ég er hlynntur honum, svo geta menn kosið mann af einhverjum öðrum lista og þá yrði talið fyrst hverjir eru með flest persónukjörsatkvæði og svo mundu menn raða á listana á eftir. Þannig að ef einhver maður er mjög vinsæll í einhverjum flokki, segjum Framsóknarflokknum eða einhverjum öðrum flokki, er hugsanlegt að kjósendur annarra flokka mundu kjósa hann og hann yrði með mest kjör í einstaklingskosningu og mundi þar af leiðandi brjóta niður það flokksræði sem myndast við það að vera með landið eitt kjördæmi.

Ég vil gjarnan að menn skoði einhverjar af þessum leiðum og finni lausn í stað þess að fara úr einum vandanum í annan því að mér sýnist að allt stefni í það.