138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stjórnarskipunarlög.

469. mál
[14:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að með vissum tökum heldur flokksforustan í Bretlandi utan um sína hjörð. Ég hef mikið gagnrýnt flokksræði. Flokksræðið er nokkuð sterkt hér á Íslandi, eða á Alþingi, og hefur t.d. leitt til þess að nú er búið að sækja um aðild að Evrópusambandinu þótt ég sé nærri sannfærður um að vilji meiri hluta þingmanna stendur ekki til þess. Það er búið að gera ýmsar aðrar ráðstafanir líka, t.d. held ég að það hafi örugglega verið flokksræðið sem var að verki þegar lögin um Icesave voru samþykkt um áramótin en ekki sannfæring viðkomandi þingmanna, enda er hún orðin dálítið hjákátleg núna.

Flokksræðið er mjög slæmt. Kjördæmapot er það líka. Kjördæmapot hefur mér alltaf fundist óþolandi. Ég nota vegi úti á landi líka og ég er margoft búinn að segja að ég hef keyrt í gegnum velflest jarðgöng hér á landi og nota þau. Landsbyggðarfólk, ef ég má kalla það því nafni, notar aðstöðuna í Reykjavík líka, flugvöllinn, vegina og vegakerfið, menninguna o.s.frv., þannig að ég vil bara að hv. þingmenn horfi á allt landið sem sitt — þingmenn eiga að setja ramma utan um þjóðfélagið í heild sinni. Þannig eiga menn að líta á hlutverk sitt, að þeir setji ramma utan um allt þjóðfélagið. Það má kannski segja að vandamálið sem við ættum að afnema sé hvað þingmenn blanda sér mikið inn í framkvæmdir með fjárlagafrumvarpinu en ekki endilega lagasetningin. Hún gildir náttúrlega um allt landið. Þegar hér eru t.d. sett umferðarlög gilda þau alveg jafnt á Siglufirði og í Reykjavík.