138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stjórnarskipunarlög.

469. mál
[14:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi áðan að menn hefðu ákveðið að hafa sex kjördæmi nokkurn veginn jafnstór. Auðvitað getum við hvikað frá þessu og minnkað þau kjördæmi þar sem misvægið er mest. Landfræðilega er erfitt að setja upp annað kerfi. Það mætti hugsanlega skipta Reykjavíkur- og Suðurnesjasvæðinu í fjóra hluta í staðinn fyrir þrjá eins og gert er núna, sem sagt að hafa Reykjavík norður, Reykjavík suður og síðan Hafnarfjörð eða eitthvað slíkt. Það má sem sagt alveg laga misvægi atkvæðanna, það er tiltölulega auðvelt í núverandi kerfi. Ég held að menn þurfi ekki endilega að fara út í að gera landið allt eitt kjördæmi til þess, það er alveg hægt að laga það. Við lögum hins vegar ekki þröskuldana sem ég gat um áðan og eru 7%. Þeir munu væntanlega verða það áfram og þeir eru kannski fullháir, þessir 7–10% þröskuldar sem eru innbyggðir í núgildandi kerfi. Vel má vera að menn telji það svo mikilvægt að nauðsynlegt sé að hafa landið allt eitt kjördæmi.

Eins og ég gat um áðan eru ókostirnir hreinlega þeir að við fáum meira flokksræði. Það er bara þannig. Þegar einn maður í hverjum flokki er fyrsti maður á lista mun hann hafa miklu meira vægi en í dag þar sem einn maður er fyrsti maður á lista fyrir þetta kjördæmi og annar er fyrsti maður á lista fyrir annað kjördæmi, þeir keppa innbyrðis innan flokkanna um vægi og hafa nokkuð svipað vægi. Einstaklingurinn hverfur, má segja, með því að kjördæmin eru stækkuð. Flokkurinn eða hugsjónin sem bindur flokkinn saman — það eru jú hugsjónir — fær meira vægi og einstaklingurinn hverfur. Það er kannski ókosturinn við að hafa landið allt eitt kjördæmi.