138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

áfengislög.

293. mál
[15:09]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Almennt er ég þeirrar skoðunar að lög eigi að vera skýr og að lögum beri að hlíta. Ef það er vilji löggjafans að banna auglýsingar á áfengum drykkjum á að hlíta því banni, það á að fara að þeim lögum. Ef við erum ósammála þessu breytum við lögunum og heimilum auglýsingar á áfengum drykkjum.

Það þingmál sem ég tala hér fyrir, en meðflutningsmaður minn er hv. þm. Þuríður Backman, er nú flutt í sjötta skipti. Það hefur verið flutt fimm sinnum áður, ekki fengið afgreiðslu og þess vegna er það núna lagt fram eina ferðina enn. Áfengisauglýsingar, bæði almennt á áfengi og einstökum áfengistegundum, eru bannaðar hér á landi og hefur verið svo lengi. Það hefur þó aukist að framleiðendur og dreifingaraðilar áfengra drykkja reyni að koma þeim á framfæri í auglýsingum með því að nota líkar umbúðir og nöfn á óáfenga drykki sem þeir svo auglýsa.

Flutningsmenn vilja með þessu frumvarpi reyna að loka því gati sem virðist vera á löggjöfinni þannig að framleiðendur og dreifingaraðilar geti ekki farið í kringum bannið eins og að framan er lýst.

Á árinu 2001 kom út skýrsla á vegum ríkislögreglustjóra um áfengisauglýsingar. Í henni kemur m.a. fram að í Noregi taki bann við áfengisauglýsingum einnig til auglýsinga á vörum með sömu merkjum eða einkennum. Í niðurstöðum nefndarinnar er að finna tillögu um að sú leið verði einnig farin hér á landi. Það er vilji okkar að þetta verði gert og farið að þeirri ráðgjöf sem hér er vísað til úr þessari skýrslu. Ég ætla að lesa úr henni þær setningar sem snúa sérstaklega að þessu, með leyfi forseta:

„Það sem vekur sérstaka athygli við norsku löggjöfina er áherslan sem lögð er á að menn geti ekki komist fram hjá banninu með því að auglýsa vöru sem heimilt er að auglýsa, en með svo sterkri tilvísan til vöru sem ekki er heimilt að auglýsa að í raun er verið að auglýsa þá vöru. Með því að auglýsa tiltekna vöru sé í raun verið að auglýsa aðra vöru. Þá virðist löggjöfin skýr og nútímaleg.“

Ég hef margoft orðið var við það hér í umræðu um þetta mál að þingmenn eru mér almennt sammála um það meginsjónarmið að reglurnar eigi að vera skýrar. Það er mjög gagnrýnivert að fjölmiðlar skuli leyfa óprúttnum framleiðendum og söluaðilum að fara fram hjá lögunum og nýta sér þá glufu sem er að finna í þessari löggjöf.

Mig langar að beina orðum mínum til Ríkisútvarpsins – sjónvarpsins, ég beini orðum mínum sérstaklega til Páls Magnússonar útvarpsstjóra og spyr hvers vegna hann láti það viðgangast að dagskrá t.d. Kastljóssins sé aftur og ítrekað rofin til að fremja það sem ég kalla í reynd lögbrot. Þá eru sýndir einstaklingar að bjórþambi og það gengur þvert á anda laganna. Ég hef áður beint þessum spurningum til fyrrverandi menntamálaráðherra og jafnan fengið þau svör að fjölmiðlarnir geti ekki ritskoðað auglýsingar ef bókstafur laganna er ekki brotinn. Þeir sem eru ekki mjög sjóndaprir eða þeir sem fara að skjánum geta eflaust lesið að umræddur bjór sé léttöl, ekki áfengur. Þannig er farið á bak við bannið.

Nú hefur sjónvarpið, þá ekki síst Kastljósið, sýnt okkur að það er eða vill vera afar sómakært hvað áfengisneyslu áhrærir. Ég spyr: Er nú ekki kominn tími til að sýna þann sóma í verki, háttvirtur útvarpsstjóri Páll Magnússon?