138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

úttekt á virkjunarkostum fyrir álframleiðslu.

91. mál
[15:58]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég veit að klukkan nálgast fjögur og þá er utandagskrárumræða á dagskrá. Ég ætla því að nota tvær mínútur eða svo til að þakka hv. þingmönnum kærlega fyrir þessa góðu umræðu. Ég verð að segja eins og er að mér hlýnar um hjartarætur að sjá framsóknarmanninn, Guðmund Steingrímsson, tala á þeim nótum sem hann talaði hér. Þar fetar hann í fótspor góðra genginna framsóknarmanna fyrri tíðar, sem voru grænir og framsýnir og báru náttúruvernd og náttúru Íslands mjög fyrir brjósti. (Gripið fram í.) Ég sakna þess Framsóknarflokks og gott að heyra hv. þm. Guðmund Steingrímsson tala á þeim nótum.

Ég þakka hv. þm. Þór Saari einnig fyrir hans innlegg og tek þar undir hvert orð um framsal auðlinda og þessi góðu dæmi frá Noregi og Nígeríu, sem eiga einmitt að vera okkur lærdómur, því að við erum að gera og höfum gert hver mistökin á fætur öðrum, sem einmitt er að feta í fótspor þeirra sem eiga gríðarlegar auðlindir en eru í raun að gefa þær frá sér. Þá slóð eigum við ekki að feta. Fyrsta skrefið er einmitt að brjóta múra þeirrar hefðbundnu hugsunar sem hefur verið í gangi og byggja á þekkingu á umhverfinu; og kortlagningu á því sem fyrir hendi er og hvernig er best að nýta það til langs tíma. Ég tek undir þau orð líka að við þurfum að hugsa þetta ekki í nokkrum missirum eða árum heldur mörgum áratugum og helst enn lengur.

Þessi þingsályktunartillaga gerir einmitt kröfu til þess að við byggjum á þekkingu og kortlagningu. Ég vona að þetta mál fari hið fyrsta til nefndar og að unnið verði hratt og vel úr því, það er búið að bíða þess að komast á dagskrá í langan tíma. Ég læt svo lokið máli mínu þar sem klukkan slær.