138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stöðugleikasáttmálinn.

[16:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það hafi verið mjög farsælt að það samstarf tókst með stjórnvöldum, aðilum vinnumarkaðarins, Bændasamtökunum, sveitarfélögunum og fleiri aðilum sem kennt er við stöðugleikasáttmálann. Það má segja að Bændasamtökin hafi riðið á vaðið og lagt sitt af mörkum með því að semja um tiltekna skerðingu á framleiðslukjörum sínum. Að hluta til á grundvelli stöðugleikasáttmálans hafa ríki og sveitarfélög stóreflt sitt samstarf á sviði hagstjórnarmála og víðar. Endurskipulagning fjármálakerfisins, ríkisfjármálin og margt fleira hefur sömuleiðis verið unnið í þeim farvegi og það hefur verið gagnlegt.

Nú er vík milli vina þar sem er þessi ófríða skepna, skötuselurinn, og ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst henni gert fullhátt undir höfði með fullri virðingu fyrir því dýri að öðru leyti ef það á að verða til þess að menn geti ekki ástundað hér bráðnauðsynlegt samstarf og samvinnu á örlagatímum fyrir okkar þjóð. Ég trúi ekki neinu slíku fyrr en ég tek á því. Ég tel að aðstæður og verkefni muni færa þessa aðila fljótt saman aftur.

Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur hins vegar ekki neitunarvald um lagasetningu á Alþingi og ég bið alla þá að gæta að sér (Gripið fram í: En …) sem eru komnir langleiðina þangað í málflutningi sínum um þetta mál. Það er ekki slitnað meira upp úr en svo að ég kom hlaupandi hingað af fundi með Vilhjálmi Egilssyni þar sem við sátum og ræddum starfsendurhæfingarmál á grundvelli ákvæða stöðugleikasáttmálans sem hann á að hafa sagt upp klukkutíma áður.

Ég bið menn að halda ró sinni, ég held að okkur sé öllum fyrir bestu að vera ekki með stórar yfirlýsingar. Það er algerlega borðleggjandi að allir ábyrgir aðilar í þessu samfélagi hljóta að þurfa að leggjast sameiginlega á árar og það mun líka gilda um Samtök atvinnulífsins. Ætli það komi ekki á daginn að þau eigi fjölmargra hagsmunamála að gæta sem þau þurfa að vinna að með stjórnvöldum og munu efalaust gera á næstunni þó að aðkoma þeirra nákvæmlega að því samstarfi kunni að taka einhverjum breytingum í kjölfar þeirrar ákvörðunar? Ég kvíði því ekki og bið menn þar af leiðandi að halda ró sinni. Það er þannig á Íslandi í dag að við eigum nóg af raunverulegum vandamálum (Forseti hringir.) til að glíma við þó að við séum ekki að rembast við að búa til ný. (Gripið fram í: Rétt.)