138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stöðugleikasáttmálinn.

[16:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sagði í morgun að ríkisstjórnin mundi ráða í þessu landi. Það væri óskandi að hæstv. forsætisráðherra hefði sagt þessa setningu eins og einu sinni við Breta og Hollendinga, að ríkisstjórnin mundi ráða í þessu landi.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu áðan að Samtök atvinnulífsins hefðu ekki lagasetningarvald á Alþingi. Það væri óskandi að hæstv. fjármálaráðherra hefði sagt, þótt ekki væri nema einu sinni, við Breta og Hollendinga að þeir hefðu ekki lagasetningarvald hér á landi þegar við stóðum hér fram á nætur að ræða Icesave-málið.

Frú forseti. Þessi ríkisstjórn fer fram með mál án sátta, án samvinnu, án samráðs, án samstarfs við þing og þjóð í öllum málum. Það sem er að á þessu landi fyrst og fremst í dag er pólitískur óstöðugleiki þar sem ríkisstjórnin stendur fyrir miklum óróa og óstöðugleika og veit ekki hvernig á að leysa þessi mál sem við stöndum frammi fyrir. Ríkisstjórnin ræður einfaldlega ekki við verkefnið. Ríkisstjórnin setur plástra hér og þar en oftast lenda þessir plástrar á röngum stöðum þannig að það er verr af stað farið en að gera ekki neitt. Því miður stöndum við frammi fyrir því að horfa upp á vanhæfa ríkisstjórn reyna að gera eitthvað sem ekki nokkur einasti möguleiki er á að takist. Nú er ríkisstjórnin komin í ósátt við Samtök atvinnulífsins. Hverjum hefði dottið það í hug þegar stöðugleikasáttmálinn var undirritaður fyrir tæpu ári að þetta mundi springa hér að rúmu ári liðnu?

Frú forseti. Hér er starfandi vanhæf ríkisstjórn. Hún ræður ekki við verkefnið. Þeir ráðherrar sem í henni sitja eiga að sjá sóma sinn í að segja af sér, hleypa fólki að og hætta að þvælast fyrir.