138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stöðugleikasáttmálinn.

[16:32]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Síðasti ræðumaður sagði að ríkisstjórnin hefði komið fram af offorsi í þessu máli. (Gripið fram í.) Ef (Gripið fram í.) einhver hefur komið fram af offorsi eða af óbilgirni í þessu máli eru það útgerðarmenn. Það er auðvitað ljóst að það gengur ekki að ein hagsmunasamtök í landinu stilli ríkisstjórn upp við vegg eins og í þessu máli. Við skulum muna það (Gripið fram í.) að 70% þjóðarinnar vilja breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Líka nýja ríkisstjórn.) en ekki að örfáir kvótaeigendur eigi fiskinn í sjónum, að þeir eigi hér auðlindina. Einmitt þessu þarf að breyta.

Það þýðir auðvitað ekki þegar menn vinna að stjórnarsáttmálanum að taka hér út eitt atriði, sem er 13. atriðið af 14 töluliðum í þessum stjórnarsáttmála, ég minni á það út af þeirri umræðu sem hér fer fram að það er sérákvæði, fyrirvari Samtaka atvinnulífsins vegna sjávarútvegsins. Aðrir aðilar sem standa að þessum sáttmála voru ekki með þennan fyrirvara sem hér er settur fram. (REÁ: Þetta er hártogun.) Það er hann sem menn tala um að sé í uppnámi. Ég veit ekki um aðra hluti í þessum stjórnarsáttmála. (Gripið fram í.)

Það er mjög sérstakt ef LÍÚ eða Samtök atvinnulífsins vilja vera óbundin af öllum ákvæðum í þessum stjórnarsáttmála bara út af þessu eina atriði. Það dugar ekki það sem þeir segja, að þeir vilji bara vinna með ríkisstjórninni á sínum forsendum. Þannig vinna menn ekki. Það er ýmislegt í þessum stjórnarsáttmála sem tengist endurreisn efnahagslífsins með margvíslegum hætti, sem aðilar vinnumarkaðarins, þar með Samtök atvinnulífsins, hafa unnið vel að. Við þurfum að vinna áfram í góðu samstarfi um þau mál. En að setja eitt mál eins og skötuselinn hér í forgrunn og segja að þeir séu svo óbundnir af öðrum ákvæðum stöðugleikasáttmálans finnst mér afar sérstakt.

Ég vil ítreka bara hér í lok umræðunnar að ég hvet Samtök atvinnulífsins til áframhaldandi samstarfs á grundvelli stöðugleikasáttmálans. (Forseti hringir.) Það er best fyrir þeirra hag, fyrir þeirra umbjóðendur og fyrir þjóðina alla.