138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

jöfnun samkeppnisstöðu framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni með endurskoðun á reglum ÁTVR.

357. mál
[16:35]
Horfa

Flm. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um jöfnun á samkeppnisstöðu framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni með endurskoðun á reglum og regluverki ÁTVR. Flutningsmenn þessarar tillögu eru auk mín Ásbjörn Óttarsson, Einar K. Guðfinnsson, Jón Gunnarsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Tryggvi Þór Herbertsson.

Tillagan hljóðar upp á að fjármálaráðherra sé falið að taka til endurskoðunar reglur um móttöku og dreifingu ÁTVR í þeim tilgangi að jafna stöðu fyrirtækja á landsbyggðinni.

Þessi tillaga hefur verið flutt einu sinni áður, það var á 136. löggjafarþingi. Hún byggir á vinnu sem lögð hefur verið í að skoða flutningskostnað og tækifæri til flutningsjöfnunar í landinu. Þetta hefur verið áherslumál margra stjórnmálamanna á umliðnum árum og því er vel við hæfi að halda þessu máli vakandi. Allar þessar rannsóknir hafa sýnt að kostnaður við flutning á vöru til og frá fyrirtækjum sem starfa utan helsta þéttbýlissvæðis landsins skekkir samkeppnisstöðu þeirra á innanlandsmarkaði, sömuleiðis í útflutningi.

Svo merkilegt sem það er nú tekur regluverkið sem vitnað er til og óskað er eftir að verði skoðað og tekið til endurskoðunar til vöruvals, sölu áfengis og skilmála í viðskiptum við birgja. Sett er heimild í 8. gr. þessarar reglugerðar. Þar er að finna dæmi um regluverk þar sem flutningskostnaður er íþyngjandi fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni. Þetta á sérstaklega við um bruggun á bjór og sölu á þeim ágæta miði, sem mörgum finnst, í áfengisverslunum landsins. Bjórinn er bruggaður vítt um land. Ég held að ein verksmiðja sé á höfuðborgarsvæðinu, svo höfum við bruggverksmiðju á Suðurlandi, Vesturlandi, og í það minnsta tvær á Norðurlandi. Reglur ÁTVR segja að ÁTVR reki eina móttökustöð fyrir áfengi í landinu öllu. Þegar þannig háttar til skekkir það alla samkeppnisstöðu þeirra bruggverksmiðja sem starfa utan höfuðborgarinnar með þeim hætti að þeim er gert skylt að koma vöru sinni, framleiðslu sinni, hingað til Reykjavíkur til dreifingar. Þetta þýðir með öðrum orðum að ef maður bruggar bjór í Reykjavík og framleiðir til sölu sér ÁTVR um dreifingu hans um allt land. En ef maður býr á Vesturlandi eða Norðurlandi eða á Suðurlandi verður maður að gjöra svo vel og koma þessari framleiðslu sinni hingað til höfuðborgarinnar á sinn kostnað og þaðan tekur ÁTVR og flytur þetta sömu leið til baka í mörgum tilvikum. Þetta er afspyrnuvitlaust hvernig sem á þetta er litið. Það væri í sjálfu sér mjög eðlilegt að ÁTVR tæki á móti þessum vörum víðar en á þessum eina stað til þess að draga úr flutningskostnaði, til þess að draga úr framleiðslukostnaði. Við getum líka tengt þetta samgöngumálum því að það er óþarfakostnaður og fyrirhöfn að vinna hlutina með þessum hætti. Fyrir því má hvort tveggja færa þjóðhagsleg rök og byggðaleg rök, að gerðar séu breytingar á þessu.

Þess ber þó að geta að í reglugerðinni er heimildarákvæði sem leyfir einhverjar breytingar á þessu. Það liggur fyrir að gerðar hafa verið svokallaðar óformlegar undanþágur á þessu regluverki, sem gera örlítil frávik frá þessari meginreglu. Það liggur hins vegar ekki fyrir á hvaða grunni þessi frávik hafa verið veitt eða hvaða sérstöku aðstæður þurfa að liggja fyrir svo þeim sé beitt. Þó er búið að breyta regluverkinu þar sem ég þekki best til, norður í Eyjafirði, þannig að t.d. bruggverksmiðjunni Kalda á Árskógssandi er heimilt að koma vöru sinni til móttökustöðvar ÁTVR á Akureyri sem kemur henni á þá staði þar sem hún er ætluð til sölu frá Sauðárkróki og austur um land allt til Egilsstaða. En um önnur svæði landsins gildir sama reglan áfram. Þessi litla bruggverksmiðja sem starfar norður í Eyjafirði þarf þó að koma vöru sinni til Reykjavíkur fyrir önnur svæði landsins og þaðan er varningurinn fluttur vítt um land.

Þessi breyting sem þó hefur verið gerð í þessum efnum varðandi móttökustöðina á Akureyri og dreifingu norður og allt austur um sýnir að það eru heimildir til þess að gera breytingar. Það eru tækifæri og tilefni til þess í ljósi þessara breytinga að orða þessar reglur skýrar og almennar. Í ljósi þeirra undanþága sem veittar hafa verið í þessu tilviki hlýtur að vera augljóst að það er hægt að beita þeim með víðtækari hætti en gert hefur verið. Meginatriðið í þessu máli er einfaldlega að fyrirtæki í þessari starfsgrein, hvort sem okkur líkar framleiðslan eða ekki, starfi undir sömu skilmálum burt séð hvar á landinu starfsemin þrífst.

Ég vil beina því til hæstv. fjármálaráðherra og sérstaklega hæstv. samgönguráðherra að beita sér fyrir því að þessi breyting nái fram að ganga. Þó svo að þetta mál gangi nú til nefndar, væntanlega til efnahags- og skattanefndar, hef ég fullvissu fyrir því eftir samtöl við flutningsmann þingsályktunartillögu um áfengisauglýsingar, sem er manna fróðastur um þau efni — hv. þingmaður á sæti í efnahags- og skattanefnd — að farið verður mjög vandlega ofan í þetta mál. Hv. þingmaður lítur það sömu augum og sá sem hér mælir fyrir þessu þarfa máli.

Ég hvet til þess að þetta verði gert skjótt og vel því að hér er um fullkomið réttlætismál að ræða varðandi starfsgreinina sem hér heyrir undir.