138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

jöfnun samkeppnisstöðu framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni með endurskoðun á reglum ÁTVR.

357. mál
[16:42]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég vildi kveðja mér hljóðs hérna til þess að lýsa yfir stuðningi við þetta mál. Mér finnst það ákaflega mikilvægt. Mér finnst það snúast um stærri hluti, að við verðum að vera vakandi við stjórn þjóðfélagsins fyrir alls konar svona sprotum sem eru sjálfsprottnir, við verðum að hlúa að þeim. Það sá kannski enginn fyrir að það mundu spretta upp svona lítil brugghús úti um allt land. Það var ekki mikið rætt um það. Það hefur ekki verið mikið skrifað um það í skýrslum á vegum hins opinbera eða annarra að það sé einhver sérstakur vaxtarsproti af þessu tagi á Íslandi. Það bara gerðist. Það er náttúrlega hið fallega við mannlífið að stundum gerist eitthvað þótt það standi ekkert endilega í skýrslum. Við höfum dæmi um sjómenn sem ákváðu að venda kvæði sínu í kross og byrja að brugga bjór. Annað dæmi er um bónda sem ákvað að gera það sama og innrétta hlöðuna öðruvísi. Hann bruggar núna bjór sem vinnur til verðlauna í Kanada, eftir því sem ég best veit. Svo er dæmi um mjólkurfræðing sem ákvað að nýta þekkingu sína til þess að brugga öl. Svona gerast hlutirnir.

Það er átakanlegt að hindrunin sem þetta sjálfsprottna einkaframtak mætir er hjá hinu opinbera. Hún er í ríkiskerfinu. Þrátt fyrir öll orðin sem standa í skýrslunum um að við ætlum að efla innlenda framleiðslu, við ætlum að spara gjaldeyri og hitt og þetta, er stærsta hindrunin heimatilbúin. Hún er í regluverki ÁTVR.

Það er nánast spaugilegt að heimsækja brugghús úti á landi og fá þá sögu að þau þurfi að senda afurðina alla leið til Reykjavíkur, jafnvel til þess að koma henni í verslun sem er í bæjarfélaginu sjálfu. Þetta er dæmigert skriffinnskubákn sem búið er að búa til í kringum þessa framleiðslu. Það ætti að vera sjálfsagt mál að innlendir framleiðendur gætu sjálfir komið vörunni í verslun og dreifingu. Svo er annað sem innlendir framleiðendur hafa kvartað yfir, hef ég heyrt, en það er full ástæða til að nefna það hér. Innlendir framleiðendur væna ÁTVR um að gera innlendri framleiðslu ekki nógu hátt undir höfði, að hún rati ekki nógu fljótt í hillurnar, að hún rati ekki nógu víða í hillurnar. Nú veit ég ekki hvort vínverslunin hefur gert einhverja bragarbót á þessu en það er full þörf á því vegna þess að hér þurfum við að styðja við starfsemina. Það er mjög mikilvægt. Það er mikil neysla á þessari vöru. Hún er í langmestum mæli flutt inn til landsins en vöxtur í þessum iðnaði, í þessari tegund framleiðslu, sparar gjaldeyri. Hann skapar störf og við eigum að gera allt til þess að ýta úr vegi öllum hindrunum svo þetta fallega sjálfsprottna dæmi um einkaframtak og iðnað á Íslandi fái notið sín og vaxið.