138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

468. mál
[17:04]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Meðflutningsmenn í þessu máli eru hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og Gunnar Bragi Sveinsson.

Tilgangur þessa frumvarps er að taka upp nýja aðferð við að reikna út hvers konar jöfnunarbætur, ívilnanir og uppbætur sem fyrirfinnast í fiskveiðistjórnarkerfinu og taka til hluta eins og framlaga til línuívilnunar vegna skel- og rækjubáta, vegna byggðakvóta og nú síðast vegna þeirra strandveiða sem ætlunin er að lögfesta með varanlegum hætti samkvæmt frumvarpi sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Við vitum að um langt skeið hefur tíðkast að nýta hluta aflaheimilda til ýmiss konar jöfnunaraðgerða, ívilnana og uppbóta. Þetta hefur að sönnu verið nokkuð umdeilt en það á rætur sínar að rekja til lagasetningar sem allir þingflokkar hafa komið að með einhverjum hætti.

Í þessu frumvarpi er þess freistað að setja fram tillögu um sanngjarnara fyrirkomulag þessara tilfærslna með því að miða útreikning á þeim út frá grundvelli heildarþorskígilda en ekki á grundvelli úthlutana í þeim fjórum fisktegundum sem nú er miðað við.

Á grundvelli núgildandi 10. gr. laga um stjórn fiskveiða er aflaheimildum úthlutað til byggða og jöfnunaraðgerða. Í fyrsta lagi er þessum heimildum ætlað að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda. Í annan stað til stuðnings byggðarlögum, í samráði við Byggðastofnun, þannig að hluti fari til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski. Annar hluti fari til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað afla í viðkomandi byggðarlögum og sem hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum. Heimilt er að ráðstafa aflaheimildum samkvæmt þessum lið til allt að þriggja ára í senn.

Hugsunin á bak við það síðastnefnda er að þeir aðilar sem fá byggðakvóta geti með einhverjum fyrirsjáanleika byggt upp atvinnustarfsemi sína. Við þekkjum mörg dæmi um að menn hafa fengið byggðakvóta til eins árs en ekki vitað hvað bíður þeirra á næsta ári. Tilgangurinn með þessari tilteknu breytingu, sem felur í sér að hægt er að úthluta þessum aflaheimildum til allt að þriggja ára í senn, var að menn gætu fjárfest í frekari aflaheimildum og þannig komið löppunum varanlega undir atvinnureksturinn og að menn gætu staðið jafnkeikir eftir án þess að hafa byggðakvóta.

Til viðbótar við þetta er í 11. gr. laganna gert ráð fyrir að tilgreindur hluti þorskveiðiheimilda, 3.375 tonn af óslægðum þorski, fari til þess að standa undir línuívilnun og síðan getur ráðherra ákveðið hámark á heildarmagn steinbíts og ýsu til línuívilnunarinnar. Það er kannski ástæða til þess að minna á og undirstrika að lögin tiltaka hversu mikið magn af þorski getur farið í línuívilnun. Sú breyting sem þingið samþykkti í gær um línuívilnun felur í rauninni ekki í sér meiri aflaheimildir til línuívilnunar báta hvað þorskinn áhrærir. Hluti af þeirri blekkingu sem hæstv. ríkisstjórn beitti í sambandi við það frumvarp sem nú er orðið að lögum var að segja að þessi línuívilnunarhækkun á hlutfalli ylli því að línuívilnun mundi aukast til hagsbóta fyrir minni byggðarlög. Það er einfaldlega ekki rétt. Það er eingöngu verið að opna á heimildir til fleiri og þetta mun valda vandræðum þegar fram í sækir, þegar kvótarnir fara að aukast að nýju.

Þá liggur fyrir Alþingi frumvarp sem ætlað er að festa í sessi svonefndar strandveiðar og er gert ráð fyrir að lögfesta að 6.000 tonn, sem að langmestu leyti er þorskur, verði veidd á grundvelli þess fyrirkomulags. Ætla má að áhrifa þeirrar ákvörðunar muni gæta við útgáfu aflamarks á næsta fiskveiðiári. Vegna þess að þetta frumvarp kemur fram nú á miðju fiskveiðiári er ekki hægt að taka tillit til þess þegar verið er að draga frá heildaraflamarki það aflamagn sem fer til strandveiðibátanna á þessu fiskveiðiári. Það mun hins vegar verða gert á næsta fiskveiðiári samkvæmt frumvarpinu. Samkvæmt útreikningum sem nú liggja fyrir — og ég hef óskað eftir í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd — er ljóst að strandveiðarnar munu þýða viðbótartilfærslu frá krókaaflamarks- og aflamarksskipum upp á 3,4%. Nemur þá tilfærsla vegna skel- og rækjubáta, byggðakvóta, línuívilnunar og strandveiða alls 8,6% af úthlutuðum aflaheimildum í þorski.

Þessum málum er nánar skipað í reglugerð sem ráðherra setur í kjölfar þess að ákvörðun er tekin um heildaraflamark í einstökum fisktegundum innan fiskveiðiárs. Sú reglugerð kveður á um hversu mikil skerðing verður á úthlutun í einstökum tegundum til aflamarks á hverju fiskveiðiári. Skerðingin í aflamarki vegna þessara aðgerða tekur bara til fjögurra fisktegunda, þorsks, ýsu, ufsa og steinbíts. Nánar má sjá upplýsingar um þetta í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2009/2010 sem fylgir með þessu frumvarpi sem fylgiskjal I.

Óhjákvæmilegt er þegar þetta fyrirkomulag er viðhaft að það leiði til þess að kvótaskerðing skipa verði mjög mismunandi. Til dæmis er ljóst að skip sem eru með hlutfallslega stóran hluta aflaheimilda sinna í þessum fjórum tilgreindu tegundum verða fyrir hlutfallslega mestri skerðingu en skip sem hafa á hinn bóginn einkanlega úthlutaðan kvóta í öðrum tegundum sæta minni skerðingu eða hreinlega alls engri.

Þetta telja flutningsmenn þessa frumvarps óréttlátt. Burt séð frá skoðun manna á þessum tilfærslum innan fiskveiðistjórnarkerfisins er eðlilegt að þær leiði ekki til þess að áhrifin komi svo ójafnt niður á einstökum útgerðum og skipum sem raun ber vitni.

Í fylgiskjali II með þessu frumvarpi er hægt að sjá mjög glögglega hvernig áhrifin eru eins og málin standa í dag en þó er ekki tekið tillit til strandveiðanna. Þó nokkrar útgerðir verða ekki fyrir neinni skerðingu á aflamarki vegna þessa fyrirkomulags, aðrar mjög lítilli, en þær útgerðir sem mestri skerðingu sæta verða fyrir kvótaminnkun sem nemur allt að 4,8% af úthlutuðum aflaheimildum. Meðaltalsskerðingin er um 2,5%. Það er alveg ljóst að með strandveiðunum mun skerðingin aukast enn frekar, sérstaklega hjá þeim bátum sem í dag fá mesta skerðingu því þeir bátar sem taka á sig mesta skerðingu í dag, eins og fyrirkomulagið er, eru einmitt bátar sem eru hlutfallslega með mjög mikinn hluta sinna aflaheimilda í þorski.

Eðlilegra er að skerðing aflaheimilda eða framlag útgerðanna í tilfærslur innan fiskveiðiársins verði á grundvelli úthlutaðra þorskígilda. Þar með væri tryggt að allir legðu hlutfallslega jafnmikið af mörkum, eða væntanlega um 2,5% af aflaheimildum sínum. (Gripið fram í.) Eins og staðan er í dag, ég er ekki búinn að taka tillit til strandveiðanna.

Umreikna þarf því aflaheimildir útgerða í þorskígildi og skerðingar yrðu gerðar hlutfallslega á grundvelli þeirra. Framlag frá útgerðunum yrði þó ávallt á grundvelli þeirra tegunda sem skertar eru í samræmi við lögin og reglugerð um veiðar í atvinnuskyni sem gefin er út fyrir hvert fiskveiðiár. Skerðingin yrði miðuð við heildarþorskígildi skipanna og síðan yrðu þessi skip eða útgerðir að sjá til þess að þær gætu skilað inn í þessar jöfnunaraðgerðir aflaheimildum í þeim fjórum fisktegundum, þorski, ýsu, ufsa og steinbít, sem eru til útdeilingar til þessara viðfangsefna. Umreikningur í þorskígildi er til að gæta jafnræðis og auðvelda reikning á hlutfallslegri skerðingu hvers og eins.

Eins og jafnan þegar verið er að gera breytingar á málum sem geta snert mikilsverða hagsmuni koma upp álitamál sem taka þarf afstöðu til. Skal nú farið nokkrum orðum um þau atriði.

Til eru útgerðir sem ekki eiga aflaheimildir í þessum fjórum tegundum sem notaðar eru fyrir tilfærslurnar. Eftir því sem ég hef skoðað er þó ekki um að ræða ýkja mörg tilvik og í ýmsum þeim tilvikum þar sem svo háttar til er um að ræða skip sem starfa innan útgerða sem eru með aflaheimildir í þessum tegundum. Þannig ætti ekkert að vera þeim að vanbúnaði að færa aflaheimildir milli skipa innan útgerða þannig að það væri hægt að skila þessu inn í þessar jöfnunar- og tilfærsluaðgerðir. Í frumvarpinu er þá einfaldlega gert ráð fyrir að útgerðum beri að útvega sér slíkar heimildir. Það geta þær gert með því að kaupa þær varanlega, leigja þær innan fiskveiðiársins eða með jöfnum skiptum, t.d. með því að skipta út síld fyrir þorsk. Er því eðlilegt að hafa ákvæði í lögunum sem gefi þessum útgerðum umþóttunartíma til að útvega sér slíkar heimildir. Vert er að gæta þess að nægur tími sé veittur án þess þó að framkvæmd dragist úr hófi og því lagt til að Fiskistofa veiti tveggja mánaða frest til að flytja fullnægjandi veiðiheimildir á skipið. Mikilvægt er að tryggja virkni ákvæðisins en gæta jafnframt meðalhófs og ganga ekki lengra en nauðsyn krefst. Því er lagt til að verði fullnægjandi veiðiheimildir ekki útvegaðar innan tilskilins frests falli niður leyfi skipsins til veiða í atvinnuskyni tímabundið þar til úr hefur verið bætt. Hér er ekki gengið harkalega fram heldur eingöngu reynt að hafa úrræði fyrir framkvæmdarvaldið til þess að fylgja því eftir að menn fari almennt að þessum lögum, menn missi þá veiðiréttinn tímabundið en fái hann samstundis og þeir hafa bætt úr þessu máli.

Annað álitaefni er að í sumum tegundum er aflaheimildum ekki úthlutað til fiskveiðiárs heldur á almanaksári. Því liggur ekki fyrir í þeim tilvikum hvaða heimildir menn fá við upphaf fiskveiðiárs. Eðlilegt er hins vegar að aflaheimildir þessar fari líka inn í það að standa undir tilfærslunum sem þetta frumvarp fjallar um. Til þess að ná utan um þetta mál er eðlilegast að styðjast við úthlutaðar heimildir í þeim tegundum samkvæmt úthlutun almanaksársins á undan og því lagt til að sú verði framkvæmdin samkvæmt ákvæðinu. Þetta er tiltölulega einfalt. Þarna er um að ræða nokkrar tegundir sem þannig háttar til með að heimildunum er úthlutað til almanaksárs en ekki fiskveiðiársins frá 1. september til loka ágúst. Þess vegna þarf að fara þessa leið varðandi úthlutun á þessum tilteknu tegundum og eru ekki sjáanlegir praktískir annmarkar á því.

Loks má nefna þriðja álitaefnið sem lýtur að því hvort taka eigi með inn í þennan útreikning aflaheimildir utan lögsögu okkar, til dæmis í Barentshafi. Um þetta geta væntanlega verið skiptar skoðanir. Þó er þess að geta að þessar heimildir eru komnar til vegna samninga við aðrar þjóðir, sem í sumum tilvikum hafa haft í för með sér gagnkvæmni í veiðirétti og geta því haft áhrif á aflaheimildir innan okkar lögsögu. Sanngirnisrök mæla og með því að þær útgerðir sem þennan veiðirétt hafa á grundvelli íslensks fullveldis taki þátt í tilfærslunum innan hins íslenska fiskveiðikerfis til jafns við aðrar útgerðir. Er því lagt til að ákvæðið nái til allra úthlutaðra aflaheimilda.

Þau álitaefni sem hér er fjallað um hafa oft verið til umræðu. Nú er komið að því að leiða þau til lykta með sanngjörnum hætti. Það tilfærslufyrirkomulag sem er í fiskveiðistjórnarlögunum og hér er gert að umræðuefni hefur að sönnu verið umdeilt. Það er hins vegar til staðar og hefur meðal annars byggðalegan tilgang. Allir stjórnmálaflokkar hafa með einum eða öðrum hætti komið að gerð þess lagaverks sem skapar grundvöll þess. Tilgangur þessa frumvarps er að skipa fyrirkomulagi þess með sanngjarnari hætti en nú er.

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér þarf ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta mál. Að baki því eru almenn sanngirnisrök. Hér er ekki verið að hrófla við þeim tilfærslum og jöfnunaraðgerðum, ívilnunum eða uppbótum sem fyrir löngu hafa verið lögfestar í okkar fiskveiðilöggjöf. Það er að vísu umdeilt mál eins og við þekkjum. Ekki er tekin afstaða til þess í þessu máli heldur eingöngu reynt að tryggja að hjá útgerðum sé gætt jafnræðis þannig að allir leggi hlutfallslega jafnmikið af mörkum til þessara aðgerða sem Alþingi hefur fyrir löngu samþykkt að viðhafa.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.