138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp undir liðnum um störf þingsins til að ræða fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna að gefnu tilefni. Ég er þeirrar skoðunar að þar eigi allt að vera uppi á borðum. Siðvæðing samfélagsins á ekki einasta að ná til endurreisnar viðskiptalífsins heldur og endurreisnar stjórnmálanna. Hún tekst ekki nema stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn geri hreint fyrir sínum dyrum þegar kemur að öllum hugsanlegum hagsmunatengslum og að upplýsingar liggi skilmerkilegar fyrir um eignir og skuldir, styrki og kostendur. Hér fer nefnilega betur að ganga alla leið, fremur en hálfa, og eyða allri óvissu.

Rétt er að hafa í huga að sérfræðingar sem fjallað hafa um íslenska hrunið, svo sem Kaarlo Jännäri, halda því fram að of náin tengsl íslensks stjórnmálalífs og viðskiptalífs hafi átt stóran þátt í hruninu. Ég er með öðrum orðum gersamlega ósammála þeim orðum fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins sem sagði úr þessari pontu árið 1997 að upplýsingar um fjárreiður stjórnmálaflokka ættu að vera trúnaðarsamband flokka og stuðningsmanna þeirra.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú loksins birt upplýsingar um fjárstuðning við flokkinn á nokkrum umliðnum árum. Sagt er að í suma hafi ekki náðst og að sumir hafi ekki viljað tjá sig. Eftir stendur að hátt í 200 ónafngreindir aðilar styrktu flokkinn um á bilinu 50–100 millj. kr. á árunum 2002–2006. Á sama tíma hafa einstakir flokksmenn verið kostaðir til starfa um allt frá ríflega 4 millj. kr. til 25 millj. kr. frá ónafngreindum aðilum. Meiri hluti þeirra skilaði ekki inn upplýsingum um styrkjendur og kostendur. Fyrir liggur þó að FL Group og Landsbankinn hafa verið helstu kostendur flokksins á þessum tíma.

Virðulegur forseti. Að mínu viti vantar alla fyllingu í þessa mynd Sjálfstæðisflokksins. Ég spyr varaformann flokksins, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, hvort fara eigi hálfa leið í þessari upplýsingagjöf. Ætlar flokkurinn ekki að nafngreina alla stærstu kostendur flokksins, flokksfélaga og helstu flokksmanna á síðustu árum, jafnt einstaklinga sem fyrirtæki? Vill varaformaðurinn að enn ríki (Forseti hringir.) trúnaðarsamband á milli flokks og stuðningsmanna hans?