138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar þetta umdeilda skötuselsmál var afgreitt velti ég fyrir mér hvað mundi gerast ef málið kæmi til 4. umr. Ég held að þetta sé núna að verða 4. eða 5. umr. um málið. Gallinn er hins vegar sá að hér er ekki hægt að taka nýjar ákvarðanir umfram það sem gert var þegar lögin voru samþykkt.

Nú er hins vegar komið að því að það þarf að fara að framkvæma þessi merku lög um skötuselinn. Þar er allt í skötuselslíki. Í raun veit enginn hvernig framkvæmdinni verður háttað. Nú á sem sagt að deila út ótilgreindu magni af skötusel. Það á að selja það á verði sem er kannski helmingi lægra en markaðsverð á aflaheimildum í skötusel. Með öðrum orðum er alveg ljóst mál að eftirspurnin verður langt umfram framboðið.

Ég gekk eftir því hvað eftir annað hér í umræðunni og í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis hvernig farið yrði að því að deila út þessum aflaheimildum. (Gripið fram í: Gefa þær.) Svarið var ekki neitt. Menn klóruðu sér aðeins í hausnum og komu síðan fram með þá hugmynd að sennilega væri best að gera það þannig að draga það upp úr hattkúfi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Með öðrum orðum er hugmyndin nú að lögleiða einhvers konar lottókerfi í íslenskum sjávarútvegi. Þá færi auðvitað vel á því að það yrði gert á laugardagskvöldum þegar lottóvinningunum er úthlutað. Þetta er dæmalaus aðferð, algjörlega óhugsað mál.

Síðan er hitt, frumvarpið og síðan lögin gera ráð fyrir því að hæstv. ráðherra geti úthlutað allt að 2.000 tonnum, 80% fram úr veiðiráðgjöf Hafró. Nú er sagt að Hafró verði haft með í ráðum. Hafrannsóknastofnun er búin að segja álit sitt á málinu. Ráð Hafrannsóknastofnunar verða þau sömu og þau hafa verið í þessum efnum, þ.e. að fara eftir ráðgjöf hennar. Þetta er allt saman merkingarlaust tal.

Það er undarlegt að ekkert liggur fyrir. Málið hefur verið til umræðu í þjóðfélaginu og hér í þinginu viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og öllum er óljóst um hvernig þetta verður síðan framkvæmt. Það er makalaust að hugsa til þess að ábyrgðarmenn málsins, (Forseti hringir.) meiri hluti Alþingis og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafa enga hugmynd um þetta nema helst það (Forseti hringir.) að búa til lottókerfi í fiskveiðum og draga það upp úr hattkúfi (Forseti hringir.) hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. (Gripið fram í: … Sjálfstæðisflokksins í fiskveiðistjórnarkerfinu.)