138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Vegna orða hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar vil ég að það komi skýrt fram að ég lít svo á að allir þingmenn og ráðherrar séu í vinnu hjá þjóðinni en ekki í vinnu hver fyrir annan hér í þessum sal.

Ég kem hingað upp vegna orða hv. varaformanns (Gripið fram í: Við erum …) Sjálfstæðisflokksins, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Í málflutningi hennar gat að heyra ýmsar gamlar söguskýringar á því hvernig fjármálum flokkanna hafi verið fyrir komið. Allir sem hafa kynnt sér þau mál, sögu þeirra og baráttuna fyrir því að sett yrðu lög um starfsemi stjórnmálaflokka og stjórnmálastarfsemi hér á landi vita hver sannleikurinn er í því máli. Sjálfstæðisflokkurinn stóð í vegi fyrir því árum og áratugum saman að sett yrðu lög um starfsemi stjórnmálaflokka. Menn geta ekki komið hér upp og reynt að halda einhverju öðru fram.

En svo virðast menn ekki almennt skilja til hvers þessi lög eru. Þau eru ekki fyrir flokkana, þau eru fyrir fólkið í landinu. Þau eru fyrir kjósendur svo þeir geti áttað sig á því hverjir hafi styrkt flokkana, flokksfélög, einstaka þingmenn og flokksapparötin öll með fjárframlögum þannig að kjósendur geti þar með metið stefnu flokkanna og skoðanir einstakra þingmanna í ljósi þess hvaðan menn hafa þegið styrki sína. (BjarnB: Það er verið að gera það.) Þannig er það og þannig ber að skilja þessa löggjöf. Ég vona (Gripið fram í.) að hv. þingmenn hafi ekki misskilið hana í grundvallaratriðum og er þar formaður Sjálfstæðisflokksins meðtalinn.

Eins og þetta er núna í Valhöll er trúnaðurinn enn þá mestur við þá sem létu féð af hendi rakna en hvorki við kjósendur Sjálfstæðisflokksins né almennt við kjósendur á Íslandi af því að þeir fá ekki réttar upplýsingar í hendur. (BjarnB: … Þetta er bara algjört rugl.)