138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Á fundi samgöngunefndar í morgun var rædd sú grafalvarlega staða sem er í öryggismálum sjómanna. Nú ætla ég að fara yfir hana eina ferðina enn. Eftir rúman mánuð fer þriðja þyrlan úr landi sem þýðir að þá verður ein vakt hjá þyrlunum. Það þýðir í stuttu máli, virðulegi forseti, að þá verður ekki hægt að bjarga lífi sjómanna fyrir utan 20 mílur. Ef þyrlan er t.d. í útkalli austur á fjörðum er ekki hægt að bjarga mönnum fyrir sunnan, norðan eða vestan á meðan. Það er sú grafalvarlega staða sem er uppi í þessum málum.

Mjög sláandi upplýsingar komu fram í morgun frá Landhelgisgæslunni, af þeim 332 sjómönnum sem hefur verið bjargað á undanförnum 15 árum hefur í 75% tilfella þurft að hafa tvær vaktir mannaðar. Það þýðir að ef þessi staða verður áfram eins og hún er munum við ekki geta bjargað 22 sjómönnum á ári. Þetta er algjörlega óviðunandi staða, virðulegi forseti, og við henni verður að bregðast. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það verður að gera það strax því að ég lít svo á að það þurfi ekki eitt enn hörmulegt sjóslys til að vakna af þessum draumi í ljósi þess að það kom fram hjá forstjóra Landhelgisgæslunnar að nú verðum við að endurskipuleggja öryggismál þjóðarinnar. Það þýðir ekki að fara í einhvern flatan niðurskurð með þessi mál, við verðum að endurskipuleggja öryggismál þjóðarinnar.

Í tilefni af því vil ég fá að spyrja hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur sem á líka sæti í samgöngunefnd: Hvernig líst henni á þær hugmyndir að nýja varðskipið yrði selt til þess að renna styrkari stoðum undir þyrlusveit (Forseti hringir.) Landhelgisgæslunnar og hugsanlega líka hvort það væri skynsamlegt að sameina skipaflota Hafrannsóknastofnunar undir Landhelgisgæsluna (Forseti hringir.) til að renna styrkari stoðum undir öryggismál sjómanna og tryggja að það verði (Forseti hringir.) þrjár þyrlur í landinu?