138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að ræða grafalvarlega stöðu ríkissjóðs. Í gær birtist á vef Hagstofunnar uppgjör ríkissjóðs í janúar sl. Þar kemur fram að á milli ára hafa tekjur ríkissjóðs dregist saman um 16,5% en útgjöldin aukist um 10%. Það kemur fram að gjöld ríkissjóðs í janúar voru 73% hærri en tekjurnar. Þetta er grafalvarleg staða og samkvæmt fjárlögum í ár verður fimmta hver króna sem kemur inn í ríkissjóð greidd í formi vaxta vegna þeirra skulda sem blasa við okkur.

Hallarekstur á ríkissjóði eins og hann er núna kallar á enn frekari lántökur og enn meiri greiðslur til vaxta. Þetta er grafalvarleg staða sem blasir við okkur. Það er kannski þess vegna sem menn skilja nú hvers vegna við höfum barist svo í þessu Icesave-máli sem hefði kostað ríkissjóð tugi eða hundruð milljarða króna í vexti ofan á það ástand sem blasir við okkur í dag. Að auki horfum við upp á að skuldir atvinnulífsins er tengjast vörslusköttum o.fl. vegna ársins í fyrra eru yfir 100 milljarðar kr., nánar tiltekið 112 milljarðar kr. Samkvæmt fræðunum innheimtast yfirleitt um 20% af þessum upphæðum.

Staðan sem blasir við okkur hér er grafalvarleg. Ríkissjóður er rekinn með botnlausu tapi, skuldirnar eru að aukast. Í ljósi þeirra mikilvægu viðfangsefna sem eru fram undan, að takast á við þetta stóra og merka verkefni sem er það að koma þjóðarskútunni aftur á flot, ætla ég að skilja þessa spurningu eftir: Er það ekki alveg orðið ljóst að við þurfum öll í sameiningu að takast á við þessi risastóru viðfangsefni sem blasa við? Þessi ríkisstjórn getur það því miður ekki (Forseti hringir.) einsömul og því ætla ég, eins og ég sagði áðan, frú forseti, að skilja það eftir hvort nú sé ekki þörf á meiri (Forseti hringir.) samvinnu og samstöðu á Alþingi Íslendinga til að knýja fram aðgerðir (Forseti hringir.) í efnahagsmálum.