138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

dagskrár- og kvikmyndagerð hjá Ríkisútvarpinu.

361. mál
[14:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka líka þessa umræðu. Vegna síðustu orða hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar vil ég segja að ég er sammála því að þetta á að taka til umræðu. Ég tæki undir að þegar nefndin lýkur störfum, sem nú hefur verið skipuð til að fara yfir starfsumhverfi greinarinnar á Íslandi miðað við önnur lönd og hennar hlutverk í raun og veru en þar sitja fulltrúar kvikmyndagerðarmanna með fulltrúum stjórnsýslunnar, yrði þetta borið saman. Ég held að það væri mjög áhugavert að kynna þær niðurstöður í menntamálanefnd og vega þetta og meta.

Ég vil líka vekja máls á öðru og það er að við höfum að undanförnu unnið umtalsverða vinnu í ráðuneytinu við að greina menningarstefnu stjórnvalda eins og hún hefur birst á undanförnum árum í gegnum lagasetningu og fjárlög. Ætlunin er að kynna þá vinnu á opnu málþingi 30. apríl nk. sem á að fjalla um menningarstefnu á Íslandi og þar kemur þessi málaflokkur auðvitað sterkt inn. Ég hvet alla þingmenn, hvort sem þeir eru í menntamálanefnd eða annars staðar, til þess að sækja það málþing því að hluti af þessari umræðu snýst auðvitað um menningarlegt gildi einstakra listgreina og hvernig við meðhöndlum einstakar listgreinar. Er munur þar á milli? Mig grunar að svo sé og það byggir á sögu og hefð. Þá þarf að ræða hvort við viljum breyta þeirri sögu og hefð. Við höfum í rauninni verið að leggja grunninn að þeirri umræðu sem ég vona að eigi eftir að vekja athygli hér í lok apríl.

Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson nefndi rekstrarformið. Ég vil nefna sérstaklega að við þurfum að muna í þeirri umræðu að hluti þeirra breytinga var rökstuddur með tilvísun í ESA og gerðir Evrópusambandsins hvað það varðar. Ég vil líka minna á að á Norðurlöndum eru almannaútvörp ýmist sjálfseignarstofnanir eða opinber hlutafélög en þar virðist hins vegar ríkja meiri sátt um það hlutverk sem þeim er ætlað. Ég held að okkar hlutverk núna í endurskoðun á þjónustusamningi sé að setja betur niður hvað er útvarpsþjónusta í almannaþágu. Hvernig gegnir útvarpið sínu hlutverki best? Hins vegar þurfum við líka að meta, eins og ég hef áður sagt, hvernig þetta rekstrarform hefur gefist, hvað má bæta þar og (Forseti hringir.) hvernig við viljum þróa þessa stofnun áfram til frambúðar.

Ég tek að lokum undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að þetta er okkur gríðarlega dýrmæt eign. Það má skoða margt hvað varðar norrænt efni, ég hef því miður ekki tíma til þess núna en ég tek undir með hv. þingmanni að það skiptir líka máli hvaða þjóðir og hvernig dagskrá almannafjölmiðils (Forseti hringir.) endurspegla fjölþjóðlegt umhverfi eins og það sem við lifum í.