138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

starfsstöðvar Ríkisútvarpsins.

362. mál
[14:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er alltaf mjög hlynnt skemmtilegum fréttum, svo ég taki upp síðustu orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, og þakka honum fyrir þessa fyrirspurn. Við höfum reyndar rætt þessi mál áður, þau voru til umræðu í utandagskrárumræðu á dögunum og það liggur fyrir að þetta er mikið til umræðu víða um land, eins og hv. þingmaður benti réttilega á í sínum inngangsorðum.

Meðal þess sem hefur verið talið og er augljóslega eitt af hlutverkum Ríkisútvarpsins er að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð, senda út dagskrá til alls landsins og næstu miða, a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá árið um kring og að sinna landinu öllu, m.a. með aðstöðu til dagskrárgerðar og útvarps utan höfuðborgarsvæðisins. Í þjónustusamningnum sem gerður var fyrir árin 2007–2012 kemur fram að Ríkisútvarpið eigi að bjóða upp á svæðisbundnar útsendingar á efni, þar með talið fréttum, menningu, afþreyingu og listum, til að þjóna betur íbúum á landinu öllu. Með ákvæði þeirrar greinar birtist skýr afstaða til þess að svæðisbundnar útsendingar hafi verið mikilvægur þáttur í starfsemi félagsins.

Nú hefur Ríkisútvarpið sett fram þessar hugmyndir og aðgerðir í niðurskurðarskyni. Fram hefur komið að heildarsparnaður við þessar aðgerðir sé 31 millj. kr. Það miðast bara við hinar svæðisbundnu útsendingar því að ekki stendur til að loka þessum starfsstöðvum. Í svarbréfi Ríkisútvarpsins við fyrirspurn hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur, sem lögð var fram á aðalfundi Ríkisútvarpsins, koma fram hugmyndir RÚV um hvernig standa eigi að þjónustu við hinar dreifðari byggðir. Miðað er við að áfram verði haldið öflugri fréttamiðlun af landsbyggðinni og að hlutur frétta af landsbyggðinni á landsrásum útvarps og sjónvarps eigi að aukast þegar frá líður vegna nýrra vinnubragða. Þar kemur fram að nýr landsbyggðarfréttatími á að fara í loftið í byrjun marsmánaðar 2010, sem þegar hefur gerst og er hann núna í hádeginu á hverjum degi. Enn fremur eru viðraðar hugmyndir um að sérstakur vikulegur sjónvarpsþáttur verði gerður með fréttum og dægurefni af landinu öllu. Hins vegar má deila um hvort þessar áherslur séu til framdráttar eða hvort svæðisbundnu útsendingarnar séu það sem fólk vill halda í. Mér finnst mjög mikilvægt að eitt af því sem við ræðum núna við endurskoðun þjónustusamningsins við hina þingkjörnu stjórn Ríkisútvarpsins og útvarpsstjóra sé hvaða áherslur eigi að setja í þetta.

Ég vil segja Ríkisútvarpinu það til hróss að það hefur lagt fram ákveðna áætlun um hvernig standa eigi að þjónustu við landsbyggðina en vill í hagræðingarskyni gera þessar breytingar. Ef mat almennings er hins vegar að þetta sé lakari þjónusta en var finnst mér sjálfsagt að það sé tekið til umræðu. Þetta er sem sagt meðal þess sem við ræðum nú við gerð þessa þjónustusamnings. Þeirri endurskoðun lýkur varla fyrr en einhvern tímann á næstu mánuðum. Við áttum okkar fyrsta fund með stjórninni í þessari viku — eða var það í síðustu viku? Nú man ég það ekki alveg en á síðustu dögum — þar sem við lögðum fram ákveðnar hugmyndir. Ég veit til þess að stjórnarfundur var haldinn í gær og farið var yfir ýmsar af þeim hugmyndum, þannig að við erum í raun rétt að hefja þessa vinnu.

Ég lít svo á að þarna skipti máli að halda uppi umræðu. Þetta þarf auðvitað að ræða um land allt. Mér hafa borist ályktanir utan af landi en mér finnst líka að við þurfum að líta til þeirra hugmynda sem hafa verið lagðar fram af hálfu RÚV varðandi hvaða breytingar þeir vilja gera sem þeir telja að efli þessa þjónustu. Þarna vegast á rök eins og kom fram í utandagskrárumræðunni hér um daginn. Annars vegar þessar svokölluðu „lókal“ fréttir en kannski má segja að fyrir þeim sé einkum áhugi á tilteknu svæði, þ.e. þær hafi ekki áhugasvið fyrir landið allt. Mótrök Ríkisútvarpsins hafa hins vegar verið: Við erum að efla fréttaflutning á landsbyggðinni sem hefur gildi fyrir landið allt. Þetta eru auðvitað rök sem vegast á. Ég held að við verðum að horfa á það málefnalega og velta fyrir okkur hvernig hagsmunum landsins alls er best borgið. Ég held að það séu rök með og á móti hvoru tveggja en fyrst og fremst verðum við að reyna að tryggja að hlutverk Ríkisútvarpsins, sem er að þjóna landinu öllu, verði tryggt. Verður það best gert með svæðisbundnum útsendingum eða verður það best gert með fréttaflutningi og efni frá landinu öllu í einni dagskrá? Ég held að það sé ekki til einfalt svar við þessu. Þetta er til umræðu og enn er tími til að koma athugasemdum á framfæri og taka til umræðu hvert eigi að stefna í þessum efnum.