138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

starfsstöðvar Ríkisútvarpsins.

362. mál
[14:28]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög mikilvæg umræða og rétt er að endurtaka orð hæstv. ráðherra, að ein af réttlætingum þess að reka ríkisútvarp er að það þjóni landinu öllu. Það erum við ekki að gera. Við erum með ríkisútvarp en við bregðum upp skakkri mynd af Íslandi. Þriðjungur til helmingur landsmanna býr úti á landi. 95% starfsmanna eða meira hjá Ríkisútvarpinu vinnur á einum og sama blettinum í Reykjavík. Allar aðrar norrænar þjóðir haga sér öðruvísi. Þær hafa eflt og styrkt starfsstöðvar sínar úti á landinu. Það nægir að nefna Noreg í þeim efnum og Finnland er kannski enn þá glæsilegra dæmi. Hér verðum við að taka okkur tak. Þetta er ekki ríkisútvarp allra landsmanna. Þetta er útvarp Reykjavík. Það er brugðið upp skakkri mynd þegar kemur að vali á viðmælendum, umræðuefni og myndefni þegar Ríkisútvarpið er í nær öllu tilliti starfrækt á einum bletti á landinu: í Efstaleiti.