138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

starfsstöðvar Ríkisútvarpsins.

362. mál
[14:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli hér. Ég vil einnig þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir skýr og greinargóð svör hér áðan.

Mín skoðun er mjög einföld, við þurfum að verja svæðisstöðvarnar úti á landsbyggðinni. Það er gríðarlega mikilvægt og eins og kom fram í máli hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar eru 95% af starfsmönnum Ríkisútvarpsins hér í Efstaleiti. Við þurfum að færa frekari verkefni til svæðisstöðvanna. Við getum alveg byggt þær upp með þeim hætti að þær geti staðið jafnfætis hér.

Ég vil líka koma því hér á framfæri, virðulegi forseti, að það er mjög mikilvægt á þeim erfiðu tímum sem framundan eru að við hlúum að fréttaflutningi, og ekki veitir af í því ástandi sem er núna, og innlendri dagskrárgerð. Ég tel að aðrar sjónvarpsrásir geti séð um að flytja erlent dagskrárefni, sápuóperur og þar fram eftir götunum.

Að endingu vil ég segja: Það er mjög mikilvægt að við getum sagt að Ríkisútvarpið sé ríkisútvarp allra landsmanna.