138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

kynjaskipting barna í íþróttum.

404. mál
[14:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka hv. fyrirspyrjanda Eygló Harðardóttur fyrir að vekja máls á frekar áhugaverðu málefni því að oft má segja að við gefum okkur ýmsa hluti hvað varðar til að mynda kyn og hefðbundin kynhlutverk í samfélaginu þannig að hv. þingmaður tæpir hér á áhugaverðu máli.

Svarið er: Já, það er almennt skipt eftir kyni í íþrótta- og frístundastarfi barna hjá íþróttafélögum, bæði á æfingum og í keppnismótum. Skipulag keppni er almennt þannig að keppt er eftir kynjum og eftir aldursflokkum. Íþróttaskólar barnanna, sem mörg íþróttafélög skipuleggja, eru hins vegar yfirleitt ekki kynjaskiptir samkvæmt mínum upplýsingum, enda er þar um mjög ung börn að ræða, oft á leikskólaaldri, og málið snýst ekki um keppni heldur eru börnin að stíga fyrstu skrefin í íþróttaiðkun.

Þegar æfingar hefjast síðan í einstökum íþróttagreinum eru þær mjög oft kynjaskiptar og sérstaklega á það við um hópíþróttagreinar, en kynjaskipting byrjar strax bæði á æfingum og í keppni. Þó er þekkt meðal yngri barna að drengjaflokkar og stúlknaflokkar æfi stöku sinnum saman og það má líka sjá ákveðinn mun milli höfuðborgar og landsbyggðar að því leyti til að smærri íþróttafélög nýta sér frekar sameiginlegar æfingar.

Drengir og stúlkur æfa oft saman í mörgum einstaklingsgreinum, þar eru aðeins önnur sjónarmið uppi. Þar eru æfingar oft sameiginlegar en keppnin er hins vegar kynjaskipt, þau keppa t.d. ekki saman í frjálsum íþróttum eða sundi en þar fer að gæta styrkleikamunar á kynþroskaskeiði. Svo eru auðvitað íþróttagreinar þar sem stúlkur og drengir keppa saman sem pör, ég nefni dans, ég nefni tvenndarleik í badminton og fleiri slík. Áhöld í fimleikum, þar er t.d. kynjaskipting, þau eru ekki einu sinni þau sömu fyrir drengi og stúlkur og ræðst það af styrkleika.

Í hestaíþróttum er ekki skipt eftir kyni, þar eru það aldursflokkar, knapa- og gæðingaflokkar hesta. Þannig að það helgast stundum af aðstæðum en líka iðulega af sögu og hefð og jafnvel ef fáir æfa viðkomandi grein þá eru drengir og stúlkur saman. Þegar ung stúlka sem ég þekki hóf að æfa íshokkí æfði hún með strákunum og það gekk mjög vel þar til styrkleikamunur fór að koma fram við kynþroska.

Ekki liggja fyrir rannsóknir sem ég gat nálgast um ástæður kynjaskiptingar. Það er auðvitað heilmikil saga á bak við það. Annars vegar getum við dregið þá ályktun að þetta eigi rætur að rekja til munar á líkamsstyrk eins og hv. þingmaður nefndi í innleggi sínu. Auðvitað hafa margar rannsóknir verið gerðar á líkamsmun karla og kvenna, að sjálfsögðu áttu líka siðferðisleg rök hlut að máli í upphafi þegar konur byrja að taka þátt í íþróttum, það var ekki sjálfgefið hér sögulega að konur tækju þátt í íþróttum. Þær þurftu lengi að berjast fyrir þátttökurétti sínum í íþróttum. Þó að heimildir um íþróttaiðkun kvenna megi finna allt frá tímum Forn-Grikkja þótti þetta hins vegar ekki sjálfsagt mál.

Íþróttaiðkun eins og við þekkjum hana í nútímanum hefur þróast frá seinni hluta 19. aldar og byggist á ýmsum hefðum í mannkynssögunni, en segja má að þessi nútímaíþróttaiðkun hefjist á 19. öld, tengist upphafi Ólympíuleikanna og þar réðu líka þessi siðferðislegu sjónarmið að aðskilja kynin við svona iðkun þar sem þau voru fáklædd og annað slíkt. Þannig að hefðbundin kynjahlutverk og félagsmótun réði þar miklu.

Hvenær má ætla að munur verði á líkamsgetu drengja og stúlkna? Það verður um og eftir kynþroskaskeið sem hefst yfirleitt fyrr hjá stúlkum en drengjum. Algengast að það sé kannski á aldrinum 10–12 ára hjá stúlkum, en hjá drengjum hefjist það 11–13 ára. Eykst þá líkamsgeta drengjanna og skilur á milli oft hvað styrk varðar, en annars er það einstaklingsbundið eins og hv. þingmaður kom inn á.

Skoðun mín á þessu er sú að íþróttafélögin skipuleggja sitt æfinga- og keppnishald. Mér finnst mikilvægt að þessi umræða nái til þeirra. Í skólakerfinu eru til að mynda oft blandaðir íþróttatímar, kennarar nýta t.d. blandaða tíma ef aðstæður leyfa ekki annað en líka þegar það hentar, til að mynda í hreystitímum, í tímum sem gera ekki þennan greinarmun. Okkur berast líka kvartanir innan úr skólakerfinu til að mynda þegar strákar og stelpur eru sett saman í knattspyrnu á unglingsárum, þá fáum við kvartanir frá stúlkum sem eru ekki sáttar við það að vera settar í þá aðstöðu að vera ofurliði bornar út af líkamsstyrk.

Mér finnst því að við verðum að horfa á þetta út frá aðstæðum í hverri íþróttagrein og aldri. Ég hef hins vegar oft furðað mig á því af hverju keppt er eftir kynjum í skák t.d. þar sem líkamsstyrkjarrökin eiga augljóslega ekki við. Þannig að það er ekki hægt að einfalda málið og segja að þetta eigi eingöngu við um líkamsstyrk. Hér ráða miklu sögulegar og félagslegar hefðir sem mér finnst sjálfsagt að við ræðum hér og íþróttahreyfingin kannski sérstaklega ræður því. Hv. þingmaður spyr auðvitað um íþróttafélögin og þetta er kannski eitt af því sem taka á sérstaklega til umræðu þar.