138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

kynjaskipting barna í íþróttum.

404. mál
[14:48]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Þetta voru áhugaverðar spurningar sem hv. 7. þm. Suðurkjördæmis, Eygló Harðardóttir, lagði fram og ekki síður svör hæstv. ráðherra og vert umhugsunar. Ég þekki það komandi úr sveitarfélagi þar sem knattspyrna var aðaláhugaefni bæjarbúa. Það þótti ekki við hæfi að kvenfólk stundaði slíkt á þeim tíma en það er breytt. Mig langar að bæta inn í þessa umræðu hér og nú að það er ekki bara kynjaskipt í íþróttagreinunum, þegar kemur að því hjá íþróttafélögunum að leggja til fjármuni til íþróttanna þá er greinilega kynjaskipt á milli karla og kvenna, ég þekki það, eigandi fyrrum landsliðsmenn í handbolta og fótbolta af báðum kynjum. Það var mikill munur á því hvort um var að ræða dreng sem var í landsliði í knattspyrnu og handbolta eða hvort um var að ræða stúlku í landsliði í handbolta hversu mikið foreldrar þurftu að greiða með stúlkunni en lítið sem ekkert með drengnum. Það er áhugaverð pæling.