138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

kynjaskipting barna í íþróttum.

404. mál
[14:49]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar skemmtilegu umræður. Ég vil benda á að eins og svo oft áður lærum við af landsbyggðinni. Þar sem ég þekki til voru bara tvær íþróttagreinar stundaðar, þ.e. fótbolti og fimleikar, strákarnir voru í fótbolta og stelpurnar í fimleikum. En einhverjar stelpur voru ekki vaxnar til fimleika og fengu þær að vera í fótboltanum, það var enginn sem gerði svo sem neinar athugasemdir við það. Enn þann dag í dag er það t.d. þannig hjá Hetti, gott væri að fletta upp á heimasíðu Hattar, að sameiginlegar æfingar eru í körfubolta hjá unglingunum af því að þeim finnst það spennandi og það eykur frekar á mætinguna en hitt.

Mig langar til að koma aðeins inn á þá grein sem ég kannski þekki best sem er hestamennska. Þar held ég að aldrei hafi nokkrum manni dottið það til hugar að vera með kynjaskipta keppni. Ég hugsa að t.d. dætur mínar hafi nú stundum alveg viljað það en það hefur aldrei verið inni í myndinni.

Ég held að þetta sé umræða sem við eigum að taka af fullum krafti. Auðvitað þurfa lið á mismunandi styrkleika að halda og væri bara fínt að vera bæði með stráka og stelpur. Ég (Forseti hringir.) skora á hæstv. ráðherra að taka þennan bolta, fara af stað með þessa umræðu og rífum okkur svolítið upp úr hjólförunum. Ég held að það gæti líka (Forseti hringir.) breytt þessu með peningamálin.