138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

kynjaskipting barna í íþróttum.

404. mál
[14:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka þessar athyglisverðu spurningar en um leið þakka ég hæstv. ráðherra fyrir góð svör, að mínu mati, og komandi frá þeim flokki sem hún er í voru skilaboðin greinilega þau að hún ætlar ekki að fara í það að skipta sér mikið af þessu, þ.e. miðstýra þessu, heldur treysta grasrótinni. Ég fagna svörum hennar sérstaklega því að það skiptir mjög miklu máli að grasrótin sé virk, hvort sem það eru íþróttafélögin og tómstundaiðkendur en ekki síður kennarar og skólakerfið, að við treystum þeim sem þar eru að störfum, þeir sinni því að veita einstaklingunum þann farveg og það brautargengi sem hann býr yfir og hann finni tækifærum sínum farveg innan íþróttanna.

Það sem ég vil hins vegar undirstrika, komandi líka úr íþróttahreyfingunni, hef kannski ekki byggt upp stórkostlegan íþróttaferil en það sem skiptir mestu máli að mínu mati er að íþróttahreyfingin og skólarnir, ég er sérstaklega með íþróttahreyfinguna (Forseti hringir.) í huga, átti sig á ábyrgð sinni og miðli því að bæði kynin standi frammi fyrir jöfnum tækifærum. Það er á hennar ábyrgð (Forseti hringir.) að kynin innan íþróttahreyfingarinnar standi fyrir jöfnum tækifærum og fái notið sín á grundvelli þeirra.