138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

kynjaskipting barna í íþróttum.

404. mál
[14:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tek hjartanlega undir með síðasta hv. þingmanni að það er hlutverk hins opinbera og íþróttafélaganna að sjá til þess að kynin fái jöfn tækifæri. Mig langar aðeins að rifja það upp hvernig þetta hefur þrátt fyrir allt þróast með jákvæðum hætti. Það eru ekki mörg ár síðan merkur frammámaður í knattspyrnu sagði, og það olli nú töluverðum látum þegar hann sagði það, að það væri tóm peningaeyðsla að verja fjármagni t.d. í kvennaboltann í knattspyrnu. Hvernig er staðan í dag? Þetta breyttist sem betur fer. Í dag er það kannski fyrst og fremst kvennaboltinn sem er stolt íslenskrar knattspyrnu.

Sjálfur segi ég nú sem stoltur faðir dætra sem eru að byggja upp íþróttaferil, vonandi, að ég dáist að því hvernig hlutirnir hafa breyst og hversu vel er tekið utan um einmitt litlar stúlkur sem kjósa að taka þátt í íþróttum. Og ég hef dáðst að því hvernig það íþróttafélag sem ég er nú farinn að tilheyra á efri árum, KR, gerir þetta til dæmis. Mættu (Forseti hringir.) fleiri íþróttafélög taka sér KR í þessu efni til fyrirmyndar. (ÁÞS: Og ýmsu öðru)