138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

kynjaskipting barna í íþróttum.

404. mál
[14:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka líka hv. fyrirspyrjanda og þeim hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Ég held að við áttum okkur alveg á því að kyn er breyta sem hefur áhrif á líf okkar. Ég held að það sé kannski ein grundvallarforsenda þess að við förum inn í þessa umræðu, ég held að það sé gott að við eigum þá umræðu og höldum henni áfram.

Ég man raunar líka eftir lífsreynslu í íþróttatíma að stóru stelpunum var stillt upp á móti þeim litlu. Ég þarf kannski ekki að orða það í hvorum hópnum ég var, [Hlátur í þingsal.] en við vorum malaðar. Þannig að það er ekki bara kyn sem ræður för, ég gleymi þessu aldrei, en þetta er svona til marks um að það skiptir auðvitað máli að taka tillit til líkamslegs atgervis líka. Ég held að mikilvægt sé að við höldum þessari umræðu áfram.

Mig langar líka að nota tækifærið og vekja athygli á þeirri ágætu tölfræði sem Íþróttasambandið hefur gefið út þar sem ýmsar breytur koma fram, þátttaka í íþróttum eftir aldri og eftir kyni. Fram kemur að 29,72% karlmanna á Íslandi stunda íþróttir innan vébanda ÍSÍ og 20,53% kvenna, það er því gríðarlega mikil þátttaka, karlarnir enn aðeins á undan konunum og það vekur okkur til umhugsunar. En ég verð að segja það Íþróttasambandinu til hróss að það er mjög gott að hafa þessa tölfræði aðgengilega, hún getur verið grunnur fyrir áframhaldandi umræðu um þessi mál, þátttöku kynjanna, fjármagn sem rennur til kynja í íþróttastarfi og hvernig er hugað að þessum málum.

Ég lít svo á að ég komi þessari umræðu líka til skila áfram inn í íþróttafélögin, fyrst og fremst finnst mér það vera hlutverk okkar að hafa dálítil áhrif á umræðuna þar innan húss og þetta sé tekið til raunverulegrar umræðu. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og þingmönnum fyrir að taka virkan þátt í umræðunni því að hún er mikilvæg.