138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi samhliða aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

240. mál
[14:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra eftirfarandi spurningar:

Telur ráðherra heppilegt að ráðast í breytingar á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu meðan aðildarviðræður við Evrópusambandið fara fram?

Ég held að þetta sé mjög tímabær spurning ekki síst í ljósi umræðu síðustu daga. Þegar við erum að sjá hvernig umræðan um Evrópusambandið er að breytast undirstrikar það það sem við sjálfstæðismenn höfum alltaf sagt, þetta er mjög viðkvæmt deilumál. Það eru skiptar skoðanir þvert á alla flokka, þó að mesti samhljómurinn sé kannski í stefnunni hjá Samfylkingunni. Málið var viðkvæmt og þess vegna lögðum við sjálfstæðismenn það til að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. að hafa þjóðina með okkur í öllu ferlinu frá upphafi og til loka málsins. Það voru margir sem gerðu svolítið grín að þeirri tillögu í umræðum á þinginu síðasta sumar en það hefur heldur betur komið á daginn að við hefðum betur farið í þá vegferð sem við sjálfstæðismenn lögðum til af því að við horfum núna upp á mikla óeiningu og vandræðagang í ríkisstjórnarflokkunum í þessu máli. Það hefði auðvitað verið miklu betra fyrir samninganefndina, sem hefst bráðum handa, að vera með ótvírætt umboð frá þjóðinni en ekki óskýr skilaboð frá ríkisstjórninni. En gott og vel.

Það sem skiptir máli núna er að huga að hagsmunum þjóðarinnar. Ég held að við hæstv. utanríkisráðherra séum sammála um það að leiðin til þess að fá þjóðina til að skoða svona samninga með jákvæðum hætti liggur í gegnum sjávarútvegsmálin. Sjávarútvegsmálin eru hjartað í þessum samningi fyrir okkar sjávarútveg og ekki síður landbúnaðarmálin líka, rétt er að draga þau fram, en í sjávarútvegsmálunum verður mesti þunginn. Þetta er tilfinningalegt mál fyrir utan efnislegu rökin sem við getum dregið fram til að undirstrika þýðingu sjávarútvegsmála.

Á sama tíma stöndum við frammi fyrir því að þurfa að standa vörð um hagsmuni okkar í svona samningaviðræðum. Allir sem koma hingað til landsins, hvort sem það eru sendiherrar á vegum ESB, kommissararnir hjá ESB eða erlendir sendimenn, benda á að við séum með gott fiskveiðistjórnarkerfi, fiskveiðistjórnarkerfi sem er til fyrirmyndar, rekstrarlega hagkvæmar einingar o.s.frv. Hæstv. utanríkisráðherra veit að þegar hann er á erlendri grundu, og aðrir ráðherrar, erum við Íslendingar spurðir um þekkingu okkar í tveimur málum, þ.e. í orkumálum og sjávarútvegsmálum.

Ég spyr utanríkisráðherra: Er það ekki arfavitlaust, er það ekki beinlínis galið, að fara út í þann leiðangur sem ríkisstjórn Íslands er farin í, að kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu?

Með þessu er ég ekki að segja að ekki eigi að fást við fiskveiðistjórnarkerfið. Þar eru ákveðin umdeilanleg atriði en ég er sannfærð um að hægt er að ná sátt um það kerfi sem nú er í gangi ef menn leggja sig fram í þeirri vegferð, ef menn leggja sig fram.

Ég vil segja að að mínu mati er þetta algjörlega snælduvitlaust, (Forseti hringir.) galið, að segjast ætla að standa vörð um hagsmuni Íslands í samningaviðræðum við ESB þegar menn eru á fullu í því að kollvarpa því kerfi sem stendur sig vel fyrir íslenskan atvinnuveg.