138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi samhliða aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

240. mál
[15:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra segir að það sé ekkert að því að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu meðan á samningaferlinu stendur. Því er ég algjörlega ósammála því ég undirstrika það sem ég sagði áðan: það er litið til okkar sem fyrirmyndar þegar kemur að stjórn fiskveiðimála eða sjávarútvegsmála. Um leið veikist staða okkar ef við erum ekki þessi fyrirmynd sem við höfum verið fram til þessa. Ef samningsaðili okkar, sem er ESB, veit af því að við erum sjálf að veikja okkar eigin undirstöður, að á sama tíma og ríkisstjórn Íslands er að semja um brýna hagsmuni í þessu mikilvæga máli, sem ég tel að verði að klára, er hún að veikja okkar eigin samningsstöðu í slíkum viðræðum með því að kollvarpa því kerfi sem hefur gilt hér síðan 1984. Kerfið er umdeilanlegt, það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, en það skilar arði. Það er hagkvæmt fyrir þjóðarbúið. Það skiptir okkur mestu að hér séu rekin sterk sjávarútvegsfyrirtæki á öllum sviðum.

Það þarf að ná sátt, við vitum það og erum sammála um það, ég og hæstv. utanríkisráðherra, en sáttin felst ekki í því að rústa þessu kerfi eða koma inn bakdyramegin með galna leið sem er í fyrningunni. Það er hægt að leysa þetta á grunni þess kerfis sem nú er. Ef það er gert styrkist að mínu mati um leið staða okkar í þeim viðræðum sem eru fram undan. Hún mun styrkjast en ekki veikjast, sem mér finnst ríkisstjórnin vera að gera. Kannski er þetta bara hárfínt plott hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að veikja samningsstöðu Íslands í þessu ferli þannig að þjóðin síðan muni hafna samningnum.

Ég velti því líka fyrir mér út frá því sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan, að hann hefði hlustað á mig og verið sammála framan af því sem ég sagði. Ég gat þess sérstaklega að við sjálfstæðismenn hefðum barist fyrir því að hafa tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Því er lag fyrir mig að spyrja (Forseti hringir.) núna: Telur ekki ráðherra að það hefði verið farsælla fyrir allt ferlið að fara í þetta umsóknarferli með þjóðina og samþykki hennar í farteskinu?