138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi samhliða aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

240. mál
[15:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Svarið við síðustu spurningu hv. þingmanns er nei. Ég tel ekki að það hafi verið farsælla. Það sem er farsælast í þessu er að það er þjóðin sem að lokum kveður upp sinn dóm.

Ég er ekki hræddur við að beita markaðslausnum og alls ekki í sjávarútvegi. Reyndar tel ég að fyrningarleiðin svokallaða feli í sér mun meiri útfærslu á lögmáli markaðarins en núverandi kerfi, sem að vísu byggir á töluverðu leyti á því í gegnum framsalið. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gat þess réttilega að innan Evrópusambandsins er töluverð andstaða við hugmyndafræðina sem liggur að baki hinu frjálsa framsali. Hins vegar er alveg ljóst að það mun engu máli skipta varðandi aðild okkar að Evrópusambandinu hvort við erum með frjálst framsal eða ekki. Ég held líka að það muni engu máli skipta þótt við hefðum söðlað yfir í fyrningarleiðina. Það sem hefur alltaf vafist fyrir mér, sem hef stutt þá leið síðan árið 2000, er að mig hefur skort útfærslu á yfirgangsskeiðinu, þ.e. breytingaskeiðinu á milli þessara tveggja kerfa. Á meðan ekki er hægt að sýna fram á með mjög pottþéttum rökum hvernig það á að vera held ég að fyrningarleiðin muni alltaf eiga erfitt uppdráttar. Þess vegna sagði ég það við hv. þingmann áðan að sú skylda hvílir á okkur sem höfum flutt fram leiðina að sýna fram á að hún gangi að öllu leyti upp. Við þurfum að hrinda rökum þeirra sem segja að hún muni leiða til einhvers konar efnahagslegra ógangna fyrir sjávarútvegskerfið. Það er skylda sem hvílir á málsvörum fyrningarleiðarinnar.

Að öðru leyti er ég algjörlega sammála því að við þurfum að bæta sjávarútveg okkar eins og kostur er. Það gerum við á hverju einasta ári. Ég hef ekkert þing setið síðan 1991 þar sem við höfum ekki gert það. Á þeim tíma sem mun líða frá deginum í dag þar til við komum heim með samning er ég sannfærður um að við eigum eftir að gera a.m.k. fimm, sex breytingar á þessum lögum og það er ekkert athugavert við það. (Gripið fram í.)