138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

lækkun dráttarvaxta og sparnaður heimila og fyrirtækja.

415. mál
[15:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Bráðaaðgerðir fyrir skulduga Íslendinga voru á meðal þess mikilvægasta sem Alþingi og ríkisstjórnir hafa þurft að grípa til í kjölfar á hruni fjármálakerfis og gjaldmiðils og hafa þó nokkuð margar þeirra gengið fram. Ein af þeim er breyting á lögum um vexti og verðtryggingu frá 18. desember 2008 þess efnis að lækka leyfilegt álag á dráttarvexti. Því var ætlað að koma til móts við fjölskyldur og heimili í landinu í kjölfar fjármálakreppunnar sem reið svo harkalega yfir land okkar, en í áætluninni kom m.a. fram hvernig lækka megi kostnað sem skuldug heimili þurfa að glíma við, af því að nógu himinháir eru vextirnir, verðbæturnar ofan á verðtryggðu lánin, svo ekki sé talað um hrun á gengistryggðum lánum til hækkunar og tvöföldunar og þreföldunar.

Í frumvarpinu sem var lögfest í desember 2008, fyrir einu og hálfu ári liðlega, var í fyrsta lagi lögfest að dráttarvextir miðuðust framvegis við 7% álag ofan á algengustu skammtímalán Seðlabanka til lánastofnana, en í gildandi lögum var kveðið á um að gildandi algengustu vextir á skammtímalán væri 11% álag. Því var verið að lækka álagið með þeim lögum sem þá voru samþykkt, úr 11% í 7% eða um 4%. Í öðru lagi var heimild Seðlabankans til að ákveða annað vanefndaálag ofan á viðmiðunarvexti felld á brott.

Þetta voru meginbreytingarnar á þeim lögum sem ég nefndi áðan að álag miðaðist framvegis við 7% í stað 11% ofan á þegar um dráttarvexti væri að ræða. Og það skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli þegar skuldabálið brennur hvað heitast á þeim sem eiga fullt í fangi með að standa í skilum. Það sem skiptir mestu máli er að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur að gera fólki kleift að standa í skilum með öllum tiltækum ráðum og þar koma sérstaklega inn úrræði eins og að lækka dráttarvexti eða hugsanlega að afnema þá tímabundið.

Þess vegna spyr ég hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra til að varpa ljósi á málið: Hver er talinn heildarsparnaður fyrirtækja annars vegar og heimila og einstaklinga hins vegar af lækkun dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 159/2008, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, en þá lækkuðu vextirnir úr 11% í 7%?

Þetta var gert í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Nú er komið frumvarp sem gengur enn þá lengra og munum við kannski tæpa á því á eftir, en það væri mjög forvitnilegt og gagnlegt að heyra hverju þessi lækkun hefur skilað og hverju frekari lækkun gæti hugsanlega skilað til viðbótar.