138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

brunavarnir á flugvöllum landsins.

434. mál
[15:37]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér er það bæði ljúft og skylt, um leið og ég þakka hv. þingmanni fyrir að bera fram þessar spurningar, að svara þeim eftir bestu getu og vegna þess að spurningarnar eru margar ætla ég nú að vinda mér beint í það til að nýta tímann.

Fyrsta spurningin, virðulegi forseti, er svohljóðandi: „Telur ráðherra að brunavarnir á flugvöllum landsins séu með þeim hætti að fullt öryggi sé tryggt?“

Því er til að svara að mannvirki á flugvöllum og brunavarnir þeirra falla í meginatriðum undir ábyrgð slökkviliðs viðkomandi sveitarfélags samkvæmt lögum um brunavarnir. Rekstraraðilum flugvalla er hins vegar gert að tryggja viðbúnaðarþjónustu á flugvöllum sem er tiltekið fyrsta viðbragð vegna flugslyss eða óhapps á flugvelli. Sá viðbúnaður er í eðli sínu fyrst og fremst flugöryggismál en ekki brunavarnamál og um þá þjónustu gilda ströng tímamörk. Slökkvilið sveitarfélags er síðan kallað til aðstoðar ef þörf er á sem annað viðbragð við óhappi. Rekstraraðili flugvallar er ábyrgur gagnvart Flugmálastjórn fyrir því að flugvöllur á hans ábyrgð hafi viðbúnaðarþjónustu, þar með talið slökkviþjónustu, í samræmi við stofnsáttmála Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, þ.e. Chicago-sáttmálann, aðallega viðauka 14 við sáttmálann og leiðbeiningarefni með honum. Þessar reglur kveða á um umfang viðbúnaðar sem tekur m.a. mið af stærð loftfara og magni flugumferðar. Flugmálastjórn hefur eftirlit með rekstraraðilum flugvalla og að þeir uppfylli kröfur um viðbúnaðarþjónustu samkvæmt reglugerð nr. 464/2007, um flugvelli, og áðurnefndan viðauka 14. Að öðru leyti hefur Flugmálastjórn ekki afskipti af brunavörnum á flugvöllum.

Ég er sannfærður um að flugvellir landsins uppfylla þær flugöryggiskröfur sem gerðar eru til þeirra um viðbúnaðarþjónustu samkvæmt þeim alþjóðlegu stöðlum sem okkur ber að fylgja.

Önnur spurningin hljóðar svo: „Telur ráðherra að menntun, þjálfun og búnaður þeirra sem sinna eiga brunavörnum á flugvöllum landsins sé eins og best verður á kosið?“

Menntun, þjálfun og búnaður þeirra sem sinna fyrstu slökkviliðs- og björgunarstörfum á flugvöllum af hálfu rekstraraðila flugvalla eru í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt reglugerð nr. 464/2007. Hins vegar fól ég Flugmálastjórn Íslands í síðasta mánuði að fara yfir og bera saman þær kröfur um menntun, þjálfun og heilbrigði sem gerðar eru í reglugerð, áðurnefndri reglugerð, við nágrannaríkin í austri og vestri, enda leggja þau sömu viðmið til grundvallar. Almennt eru kröfur til þeirra sem sinna viðbúnaði á flugvöllum ekki lakari en þekkist hjá slökkviliðum viðkomandi staða.

Þriðja spurningin hljóðar svo: „Er ráðherra þeirrar skoðunar að lög um brunavarnir gildi ekki um flugvallarslökkvilið?“

Lög nr. 75/2000 gilda ekki um þá viðbúnaðarþjónustu, þar með talið um slökkvi- og björgunarþjónustu, sem rekstraraðilum flugvalla er gert að tryggja. Rekstraraðilum flugvalla er ekki gert að reka slökkvilið í skilningi laga nr. 75/200, um brunavarnir. Hins vegar ber rekstraraðila flugvallar að tryggja fullnægjandi þjálfaðan mannskap, tæki og búnað til að geta tryggt fyrsta viðbragð við flugslysi, í samræmi við ákvæði í reglugerð 464/2007 og alþjóðlegar kröfur. Flugmálastjórn Íslands annast eftirlit með að kröfum sé fullnægt.

Varast ber að rugla saman kröfum til rekstraraðila flugvalla til að sinna fyrsta viðbragði samkvæmt reglugerð nr. 464/2007, sem eru fyrst og fremst öryggiskröfur, og lögbundnum brunavörnum slökkviliða sveitarstjórna, samkvæmt lögum um brunavarnir, nr. 75/2000. Rekstraraðilar flugvalla uppfylla öryggiskröfur samkvæmt reglugerð nr. 464/2007 um fyrsta viðbragð eins og þær eru hverju sinni.

Fjórða spurningin hljóðar svo: „Hyggst ráðherra endurskoða reglugerðir um flugvelli, eins og brunamálaráð hefur lagt til, með vísan í lög um brunavarnir þannig að gildissvið laganna sé ótvírætt?“

Eins og áður hefur komið fram hef ég falið Flugmálastjórn Íslands að endurskoða kröfur um viðbúnaðarþjónustu á flugvöllum hvað varðar mönnum, þjálfun og fleira. Vinna er þegar hafin og áætlað er að skila fyrstu drögum í byrjun maí næstkomandi.

Sem svar við fimmtu spurningunni, virðulegi forseti, er það að segja að af öllum fasteignum á flugvöllum eru eins og af öðrum mannvirkjum greidd lögbundin opinber gjöld, þar með talin fasteignagjöld. Ekki eru greidd sérstök gjöld af samgöngutækjum eins og flugvélum og skipum og kann ég ekki aðrar skýringar á því en að hið alþjóðlega regluverk sem gildir um þessi samgöngutæki setji þessi mörk. Hinu þarf að halda til haga, virðulegi forseti, að samgönguyfirvöld verja umtalsverðum fjármunum til viðbúnaðarþjónustu á flugvöllum, þar með talið vegna brunavarna, þjálfunar starfsmanna og fjárfestinga í búnaði. Sá búnaður og starfsmenn standa sveitarfélögum einnig til boða, (Forseti hringir.) ef þannig stendur á, eins og ítrekað hefur reynt á. Þjónusta slökkviliða er bráðaþjónusta sem best er sinnt af viðkomandi sveitarfélögum, enda hlutverk þeirra mun víðtækara en viðbúnaðarþjónusta á flugvöllum.