138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

brunavarnir á flugvöllum landsins.

434. mál
[15:45]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Í raun og veru er ekki annað að gerast en það að Flugstoðir eru að segja upp samningi við slökkvilið höfuðborgarsvæðisins um þjónustu á Reykjavíkurflugvelli sem hefur verið í gildi að mig minnir í fimm ár. Það gera Flugstoðir einfaldlega vegna þess að þar er það metið svo að með því sé hægt að spara peninga. En ég vil taka það skýrt fram, virðulegi forseti, og það verður að vera alveg klárt, og þar treysti ég Flugmálastjórn Íslands alveg 100% fyrir því, að ekkert verður gert núna sem stofnar öryggi flugfara í hættu. Það verður aldrei gefinn neinn afsláttur á flugöryggi, þannig að það sé alveg á hreinu. Þetta snýst eingöngu um að hið opinbera fyrirtæki er að segja upp þessum samningi, sem ef ég man rétt var upp á 120 milljónir á ári, og er að taka þetta verkefni meira í sínar hendur. Við skulum hafa í huga að hið opinbera fyrirtæki á öll tækin sem þarna voru notuð, slökkvibifreiðar og annað. Ég hef lesið þessa pappíra alla í gegn og er sammála því sem Flugstoðir eru að gera, enda geri ég þá kröfu á Flugstoðir að þeir skeri niður og spari um 10% eins og aðrar stofnanir samgönguráðuneytisins og ég get auðvitað ekki slegið af því. En það skal ítrekað enn einu sinni, virðulegi forseti, að það verður aldrei gert með einhverjum afslætti á flugöryggi.

Ég vil alveg hiklaust halda því fram, enda gildir það um marga flugvelli úti um allt land að þar eru það starfsmenn Flugstoða sem annast þetta viðbúnaðarstig, þessar fyrstu mínútur sem eru svo mikilvægar. Auðvitað kemur svo slökkvilið viðkomandi svæðis og þannig hefur það einfaldlega alltaf verið. Við erum því ekki að taka þetta frá eða færa auknar skyldur á sveitarfélögin. Sveitarfélögin fá öll gjöld, opinber gjöld af öllum byggingum sem eru við viðkomandi flugvelli og eiga þar með að sinna þeim, alveg eins og t.d. með opinber gjöld af Smáralindinni eða Kringlunni að þar með er slökkviliðið með ábyrgð gagnvart þeim en ekkert sér slökkvilið Smáralindar eða Kringlunnar. Það er svo, virðulegi forseti.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp og gefa mér færi á að svara þessu hérna. En ég ítreka það sem ég hef sagt, ég hef beðið Flugmálastjórn um að fara yfir þessa þætti og bera saman hvernig þetta er (Forseti hringir.) í nágrenninu í vestri og austri, og eins að það verður enginn afsláttur gefinn á flugöryggi.