138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

álit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

417. mál
[18:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi geta þess að fyrri liður fyrirspurnar minnar er orðinn úreltur en hann sneri að því hvort ráðherra hygðist láta þýða á íslensku álit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um aðildarumsókn að ESB. Þeirri spurningu hefur verið svarað með afar jákvæðum hætti og ætla ég að hrósa hæstv. ráðherra fyrir það.

Seinni liður spurningarinnar vísar hins vegar til kynningar á þessu áliti og snýr að því hvernig ráðherra hyggist kynna álitið fyrir þingi og þjóð áður en það verður tekið fyrir á fundi leiðtoga Evrópusambandsríkjanna í lok þessa mánaðar.

Þetta var skrifað einhvern tíma í byrjun mars og þá stóð til að taka það fyrir á fundi ráðsins, sem er jafnvel í dag eða næstu dögum, en hefur frestast eins og kunnugt er sem er ágætt vegna þess að ekki hefur farið mikið fyrir þessari kynningu, verð ég að segja, og því vil ég láta þessa spurningu standa.

Þetta álit framkvæmdastjórnarinnar er nefnilega merkilegt plagg. Mér finnst það vera hápólitískt og því vil ég kannski fá að hnýta aðeins við spurningu mína til hæstv. ráðherra um hvernig starfshópurinn sem vann þetta plagg starfaði. Það segir í tilkynningu að þetta sé byggt á gögnum og skýrslum um Ísland og vinnuhópsins. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti gefið mér upplýsingar um aðkomu íslenskra yfirvalda eða íslenskra embættismanna að þeirri upplýsingagjöf vegna þess að mér finnst um margt fróðlegt að lesa þetta. Það eru ákveðnar túlkanir á ýmsum deilumálum sem við eigum í og það er kannski minna gert úr því að við erum að fara eftir evrópskum reglum í öllu þessu samhengi og meira gert úr einhverjum hnökrum sem tíndir eru til.

En varðandi kynningu skjalsins eða skýrslunnar sakna ég þess, hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef ég fer rangt með, að það hafi verið kynnt í utanríkismálanefnd. Ég hef ekki orðið vör við það að hæstv. ráðherra kynnti þetta sem skýrslu til þingsins. Af hverju finnst mér þetta mikilvægt? Jú, vegna þess að í þessu er fullt af spurningum sem er ósvarað varðandi aðildarumsóknina og í hverju aðildin felst. Gera Vinstri grænir og hluti Samfylkingarinnar, sem eru að berjast á móti því að fá óvopnaðar flugvélar á Keflavíkurflugvöll, (Forseti hringir.) sér t.d. grein fyrir því að samkvæmt þessu eigi Ísland að vera reiðubúið að taka fullan og virkan þátt í sameiginlegri stefnu í utanríkis- og öryggismálum (Forseti hringir.) og stefnu sambandsins í öryggis- og varnarmálum sem og að vera fært um að taka á sig þær skuldbindingar sem fylgdi (Forseti hringir.) aðild á þessum sviðum. — Ég bið hæstv. forseta velvirðingar að ég óskaði ekki eftir að fá leyfi og fór fram yfir tímann.