138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

álit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

417. mál
[18:11]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur fyrir að varpa fram þessari spurningu sem er gríðarlega mikilvæg, sérstaklega í ljósi þeirra frétta að sendiherra ESB boðar að hér verði opnaðar kynningarskrifstofur bæði norðan og sunnan heiða þar sem fram fer kynning á ESB. Þá vaknar sú spurning hvort það sé ekki í verkahring stjórnvalda að reyna að koma einhverjum upplýsingum á framfæri á skipulagðan hátt þannig að það sé ekki einhliða áróður í boði ESB.

Mig langar jafnframt að nýta tækifærið og varpa fram einni örstuttri fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra: Hvað líður þeirri vinnu að skilgreina samningsmarkmið Íslands varðandi þetta aðildarferli sem við erum í? Það var boðað við umræðurnar um þetta mál þegar því var þröngvað í gegnum þingið að slík vinna færi af stað. Hvað líður þeirri vinnu og hvenær fáum við að sjá einhvern afrakstur af því?