138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

álit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

417. mál
[18:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þær umræður sem hér hafa skapast og bið forláts á því að þessi fundur í utanríkismálanefnd hefur farið fram hjá mér.

Það sem hæstv. ráðherra svaraði hins vegar ekki var aðkoma íslenskra embættismanna að þessari skýrslugerð. Eins og ég sagði áðan finnst mér þessi skýrsla vera um margt ágæt en mér finnst hún pólitísk og mér finnst vera skringilegar áherslur stundum og svo eru beinlínis spurningar sem hafa ekki verið mikið ræddar. Það er rétt að rætt hefur verið um landbúnaðinn og sjávarútveginn en t.d. ekki — og þess vegna óska ég eftir þessari umræðu og þætti gott að geta einmitt spurt hv. þm. Vinstri grænna t.d. í umræðu ef þessi skýrsla væri rædd, það væri tilefni til utandagskrárumræðu og ég fer fram á hana úr ræðustólnum og vona að henni verði tekið betur en sumum beiðnum um utandagskrárumræðu sem ég hef óskað eftir.

Ég sé t.d. á bls. 25 í íslensku þýðingunni að verið er að gagnrýna fjármálalegt reglugerðar- og eftirlitskerfi Íslands í tengslum við fjármálakreppuna, og svo segir hér, með leyfi forseta:

„Í kjölfarið hefur ríkisstjórnin hafið endurskipulagningu eftirlitsumhverfisins, í fyrstu með því að breyta lögum um Seðlabankann og skipa nýja stjórn í Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið.“

Ég spyr: Hvaða lögum um Seðlabankann var breytt öðru en því að breyta um stjórnendur í bankanum? Hvernig hefur sú breyting hert á eftirlitinu? Þarna tel ég að ef þetta eru upplýsingar, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði, sem hafa verið sendar héðan, að þetta séu mjög misvísandi skilaboð til framkvæmdastjórnarinnar. Það er fullt af svona dæmum sem mér vinnst ekki tími til að fara yfir og þess vegna væri fínt að hafa meiri tíma. Eins varðandi sjávarútveginn, fyrst við munum hafa svona mikil áhrif á að breyta honum, er það þá eftir fyrningarleið? Þegar búið er að rústa sjávarútveginum á Íslandi, er það þá sem við eigum að fara að breyta honum innan ESB?