138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

álit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

417. mál
[18:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég svaraði síðustu spurningu hv. þingmanns fyrr í dag gagnvart hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur. (Gripið fram í.) Það er allt í lagi með það, ég geri engar athugasemdir við það. Ég hefði gjarnan viljað vera með hv. þingmanni og gert það líka í dag.

Um það með hvaða hætti íslenskir embættismenn komu upplýsingum á framfæri má segja eftirfarandi:

Í fyrsta lagi: Þetta er skýrsla framkvæmdastjórnar og hún ber algerlega ábyrgð á því sjálf.

Í öðru lagi: Hvernig vann hún skýrsluna? Að verulegu leyti hlýtur hún að hafa stuðst við svör sem bárust frá íslenskum stofnunum, ráðuneytum og embættismönnum. En þá ber þess að geta að þau svör voru yfirfarin af utanríkismálanefnd. Allt það sem svarað var fór í gegnum utanríkismálanefnd og er rétt að nefna það sérstaklega að öryggis- og utanríkismálakaflinn var sérstaklega rýndur af utanríkismálanefnd. Ef ég man rétt voru gerðar breytingar á honum eftir umfjöllun utanríkismálanefndar. Þetta er þó eftir rosknu minni.

Í þriðja lagi kemur það fram í skýrslunni að fyrir utan þetta studdist framkvæmdastjórnin við upplýsingar sem hún aflaði sjálf í gegnum sína eigin sendimenn.

Í fjórða lagi í gegnum sendiherra ESB-ríkjanna, sem hér eru á Íslandi. Það er tekið sérstaklega fram að töluvert veigamikill stuðningur hafi, að mati framkvæmdastjórnarinnar, verið í áliti þeirra.

Í fimmta lagi kemur fram að framkvæmdastjórnin leitaði með sjálfstæðum hætti upplýsinga hjá einstökum félagasamtökum sem eru óháð framkvæmdarvaldinu. Þetta kemur fram í þessari skýrslu. Að öðru leyti get ég ekkert sagt eða varið það sem þar er. Þar er ýmislegt sem mér finnst dálítið skrýtið. Ég vek eftirtekt á því, af því að hv. þingmaður talar um fjármálaregluverkið, að það er mjög harður dómur t.d. yfir frammistöðu Fjármálaeftirlitsins á umliðnum árum, mjög harður. Ég ímynda mér að framkvæmdastjórnin hafi eingöngu aflað sér sjálfstæðra upplýsinga um ýmislegt sem þetta varðar en svona var unnið upp í hendurnar á þeim.