138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

rafræn sjúkraskrá.

231. mál
[18:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Maður er dálítið undrandi þegar maður hlustar á þessa upptalningu á öllum þessum gögnum að menn virðast ekki muna neitt eftir umræðum um gagnagrunnsfrumvarpið sem átti að veita Íslenskri erfðagreiningu heimild til að safna stórhættulegum gögnum af þessu tagi saman.

Nú er verið að safna öllum þessum gögnum yfir landið og miðin á einn stað og hjá ríkinu meira að segja, hjá stóra bróður. Það liggur allt fyrir þar, hvert einasta smáskref sem sjúklingurinn hefur stigið áður en hann varð sjúklingur og eftir að hann varð sjúklingur inn á stofnanir, allt liggur þetta fyrir. Ég ætla að vona að persónuverndin sé í lagi hvað varðar þessi gögn en ekki var minnst á það einu orði að vandamál gæti orðið með persónuvernd. Þegar hægt er að taka afrit með tölvum, heilu gagnabönkunum, á örskotstíma, og einhvers staðar þarf að geyma afrit, þá er sú hætta vissulega til staðar.