138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

teymisvinna sérfræðinga.

232. mál
[18:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra þessi svör vil ég brýna hana til góðra verka í þessum efnum vegna þess að í bók Atla Thoroddsens er lýst reynslu sjúklings af því að þeir sérfræðingar sem hann þarf að eiga í samskiptum við geta af einhverjum ástæðum ekki unnið saman. Það er óþolandi fyrir sjúklinga að upplifa slíkt og á ekki að koma fyrir. Ég tek skýrt fram að ég er ekki að benda á þá sérfræðinga sem þar um ræðir. Ég er einfaldlega að draga almenna ályktun af þessu einstaka dæmi um að þarna sé pottur brotinn og að við getum gert betur í þeim efnum.

Nokkur tími hefur liðið síðan ég lagði þessa fyrirspurn fram en á þeim tíma hef ég fengið fjölda ábendinga frá fólki, einkum aðstandendum sjúklinga sem eru ekki lengur á meðal vor. Þar er mikil gremja vegna þess að sú tilfinning situr eftir hjá aðstandendum að þó að það hefði kannski ekki breytt neinu um hina endanlegu útkomu í baráttu við illvíga sjúkdóma þá hafi þetta leitt af sér neikvætt andrúmsloft sem hefði verið hægt að komast hjá og er eitthvað sem dauðvona sjúklingar eiga ekki að þurfa að kljást við í heilbrigðiskerfinu.

Að þessu sögðu brýni ég einfaldlega hæstv. heilbrigðisráðherra aftur til góðra verka í þessum efnum um leið og ég þakka svör hennar.