138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

bólusetningar og skimanir.

419. mál
[18:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég hef mikinn áhuga á að spyrja um afstöðu hæstv. heilbrigðisráðherra til aukinna skimana og bólusetninga vegna smitsjúkdóma og krabbameina. Ég hef að undanförnu kynnt mér þær skýrslur sem unnar hafa verið á vegum heilbrigðisráðherra um bólusetningar, t.d. gegn leghálskrabbameinsvaldandi veirum sem og pneumókokkasýkingum.

Hér á landi hófst leghálskrabbameinsleit árið 1964. Nú eru konur á aldrinum 20–69 ára boðaðar til skoðunar á tveggja ára fresti og sá árangur sem náðst hefur með þessu skipulega leitarstarfi er ótvíræður. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Krabbameinsfélagsins hefur frá upphafi leitar nýgengi lækkað um 64% og dánartíðni um 83%. Í greinargerð starfshóps sóttvarnalæknis um kostnaðarhagkvæmi bólusetninga kemur fram að hér á landi greinast að meðaltali um 17 ný tilfelli af leghálskrabbameini og þrjú dauðsföll á ári.

Human papilloma veirur, HPV, eru aðalorsök krabbameins í leghálsi. Talið er að þær valdi um 70% allra leghálskrabbameina í heiminum, 73% í Evrópu og um 60% hér á landi. Enn fremur er leghálskrabbamein algengasta tegund krabbameins á eftir brjóstakrabbameini. Sýnt hefur verið fram á með rannsókn að hér á landi er meðalaldur íslenskra kvenna 16 ár þegar þær hafa fyrst kynmök. Aftur á móti hafa um 20% stúlkna haft kynmök við 12 ára aldur en fátítt er að stúlkur hafi kynmök yngri en 12 ára. Ég nefni þetta hér vegna þess að algengasta sýking HPV er á kynfærum og helsti áhættuþáttur fyrir smiti er kynhegðun fólks. Fyrir fáeinum árum komu á markað tvö bóluefni gegn nokkrum tegundum HPV. Bóluefnin eru ónæmisvekjandi og örugg og koma í veg fyrir forstigsbreytingar.

Í skýrslu vinnuhóps um málið er farið yfir skiptingu kostnaðar við hvert stig í greiningu leghálskrabbameins og kostnað við bólusetningu allra 12 ára stúlkna hér á landi. Þar kemur fram að bólusetning kemur í veg fyrir um 1,7 dauðsföll á ári. Enn fremur kemur fram að á verðlagi ársins 2006 er árlegur kostnaður bólusetningar um 47 millj. kr. og sparnaður um 17 millj. kr. vegna fækkunar á leghálskrabbameini og forstigum þess. Í niðurstöðum greinargerðarinnar kemur jafnframt fram að HPV-bólusetning virðist vera kostnaðarhagkvæm miðað við aðstæður hér á landi út frá ákveðnum forsendum. Jafnframt hafa rannsóknir sýnt að aukaverkanir eru vægar.

Þá vil ég koma að skýrslu ráðgjafarhóps heilbrigðisráðherra frá október 2008 þar sem bólusetningar gegn pneumókokkasýkingum hjá ungbörnum eru settar í forgang. Ég vil freista þess að fá fram afstöðu hæstv. heilbrigðisráðherra til málsins, þ.e. til bólusetninga vegna þessara tveggja atriða sem ég hef nefnt. Einnig vildi ég fá afstöðu hæstv. heilbrigðisráðherra til skimana sem stundaðar eru hér á landi, sérstaklega skimana vegna sárasóttar og rauðra hunda. Eins vildi ég freista þess að fá fram afstöðu hæstv. ráðherra gagnvart skimun gegn brjósta- og leghálskrabbameini.