138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

bólusetningar og skimanir.

419. mál
[18:57]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Sú er hér stendur er með þingsályktunartillögu í þinginu um að hafnar verði bólusetningar gegn pneumókokkum. Ég vil taka fram að hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sem er fyrirspyrjandi, er líka meðflutningsmaður og þingmenn úr öllum flokkum standa að baki þessari tillögu. Ég vil fagna því sérstaklega að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli gefa út þá yfirlýsingu að hæstv. ráðherra ætli að finna leiðir til að fjármagna bólusetningar gegn pneumókokkum. Þetta er tímamótayfirlýsing, ég treysti á að hæstv. ráðherra geti klárað það mál og ég mun leggja mitt af mörkum til að svo verði.

Einungis 5% íslenskra barna sleppa við eyrnabólgu vegna pneumókokka. Þetta er ótrúleg tala. 95% barna fá eyrnabólgu vegna pneumókokka og þriðjungur þeirra fær síendurteknar eyrnabólgur. Þriðjungur barna á Íslandi fær rör í eyrun. Þetta veldur miklum sýklalyfjainntökum og (Forseti hringir.) ónæmi gegn sýklalyfjum þannig að það er kominn tími til að taka á þessu. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. ráðherra og þeirri framsýni að nú skuli þetta bráðlega vera í höfn.