138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

skuldavandi heimilanna.

[10:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp er til að ræða og spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra út í málefni sem enn þá brennur á e.t.v. stærstum hluta þjóðarinnar og það er skuldavandi heimilanna. Ég spurðist fyrir og sendi inn fyrirspurn um sérstaka skuldaaðlögun í febrúar, að vísu til annars hæstv. ráðherra í ríkisstjórn. Ég hef ekki fengið neitt svar en hluti svarsins kom hins vegar fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar þar sem upplýst var að einungis 277 einstaklingar hafi fengið sérstaka skuldaaðlögun sem er úrræði sem á að nýtast 4.000 einstaklingum. Það segir nú eitthvað um hvernig hæstv. ríkisstjórn lítur á þingið, að vinna þetta með þessum hætti. Ég hvet hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra til að koma skilaboðum áleiðis til ríkisstjórnarinnar að svara fyrirspurnum þingmanna.

Fyrirspurnin sem ég beini til hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra er einföld. Hér kom hæstv. forsætisráðherra og sagði að búið væri að ná utan um allan vanda sem sneri að skuldavanda heimilanna. Það kom held ég flestum á óvart og m.a. er efnahags- og skattanefnd núna að fara yfir þessi mál í kjölfar þessarar yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra. Ég vildi fá sjónarmið hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og það skýrt: Er hann sáttur við að efnahags- og skattanefnd sé að reyna að finna svigrúm bankanna til að afskrifa hjá einstaklingum? Er hann sáttur við að hv. efnahags- og skattanefnd komi með tillögur þar að lútandi og er hann þar af leiðandi ósammála hæstv. forsætisráðherra um að (Forseti hringir.) búið sé að ná utan um vandann?