138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[11:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka þetta frumvarp og þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ræðuna.

Það er ljóst að peningar bæta aldrei þann skaða sem hér hefur orðið í lífi einstaklinga, oft og tíðum þannig að allt heila lífið er breytt og verður ekki endurreist. Starfsemi barnaverndarmála er mjög viðkvæm og hún fjallar um mjög erfið og viðkvæm mál. Stundum er sagt að það sé of seint gripið inn í og stundum of fljótt, þannig að þetta eru mjög erfið og vandmeðfarin mál. Þess vegna er sleginn ákveðinn huliðshjálmur utan um þessi mál þannig að upplýsingar koma alls ekki út úr þessu kerfi, alls ekki. Jafnvel fyrir þingmenn og aðra sem vilja kanna eitthvað sem þeir telja vera vafasamt, þeir komast ekki inn fyrir þennan huliðshjálm.

Það er ljóst af þessu máli að ríkið hefur mikið vald og það beitir því og getur beitt því hættulega ef menn ekki gæta að sér. Ég tel að það sé nokkuð sem hv. allsherjarnefnd ætti að velta fyrir sér, að lyfta þeim huliðshjálmi sem hvílir yfir barnaverndarmálum þannig að t.d. þingmenn eða aðrir megi skoða einstök mál ef viðkomandi barn eða umboðsmaður þess óskar eftir því. Mér finnst að þetta megi ekki vera í svona gjörsamlega lokuðu kerfi vegna þess að það sem við erum að fjalla um hérna í dag getur gerst aftur. Ég sé ekki að neitt hafi í grundvallaratriðum breyst sem hindrar það.