138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[11:22]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. þingmanni, að peningar geta aldrei bætt þann gífurlega mikla skaða sem þessi börn urðu fyrir. Hér er einungis gerð tilraun með þessari niðurstöðu sem fengin er, að rétta sáttarhönd til fólks sem varð fyrir þessu, en ég tek sannarlega undir það að peningar bæta ekki þá sálarkvöl sem þetta fólk varð fyrir í æsku og sem fylgt hefur því inn á fullorðinsárin.

Hv. þingmaður hreyfir hér mjög viðkvæmu máli. Hann orðaði það svo að losa um þann huliðshjálm sem hvílt hefur yfir barnaverndarmálum. Þá er hv. þingmaður væntanlega að tala um að opna fyrir athuganir sem fram fara hjá barnaverndaryfirvöldum um einstaka mál sem snerta barnaverndarlög og barnaverndarmál. Ég held að farið væri inn á mjög viðkvæma braut ef það yrði gert. Ég held að við sem þingmenn, sem höfum fengið kvartanir fyrir meðferð á málum hjá barnaverndarnefndum, t.d. vegna skilnaðar- og forsjárdeilna, þekkjum það að það eru þau viðkvæmustu og erfiðustu málin sem við fáum á okkar borð. Þegar við reynum að fara ofan í þau mál og hreyfa þeim sjáum við að það er raunverulega ekki fyrir neinn að skoða þessi mál nema fagaðila. Það er ekki hægt fyrir einstaka þingmenn að blanda sér í einstaka barnaverndarmál, þetta eru bara það viðkvæm mál.

Ég tel að meðferð barnaverndarmála hafi breyst mjög mikið á undanförnum árum, bæði hjá barnaverndarnefndum með tilkomu Barnaverndarstofu og með hertu eftirliti að því er varðar vistheimili o.s.frv. Ég hygg því að á undanförnum árum hafi vel verið á þessu tekið en sannarlega mundi ég (Forseti hringir.) telja það fínt ef nefndir þingsins vildu skoða þetta mál og sjá hvort betur þurfi að herða á eftirlitsmálum að því er varðar barnaverndarmál.