138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[11:38]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir hér þakka hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni allri framlagningu þessa frumvarps og lyktir þær sem nú hillir undir hvað þetta varðar frá hendi Alþingis Íslendinga.

Því er oft haldið fram að líðan barna sé bestur mælikvarði á velferð í samfélagi. Ég tel að svo sé og ég tel að það sé margt af þessu máli að læra sem við eigum að taka með okkur inn í nýja öld.

Síðast en ekki síst kem ég hingað upp, frú forseti, til þess að lofa þrautseigju þeirra sem dvöldu í Breiðavík, barnanna sem þar voru, sem nú eru fullorðnir menn, og það er mitt erindi hér upp við 1. umr. Það er víst ekki við hæfi að beygja af í ræðustól Alþingis en það er kominn tími á að sannleikurinn fái það vægi sem hann á í lífi barna á Íslandi og að sættir náist í þessu máli. Ég vona að það verði Alþingi Íslendinga, ríkisstjórn og þessu samfélagi í heild til heilla og að það kenni okkur að sofna aldrei á verðinum þegar velferð barna er annars vegar.