138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[11:40]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Um leið og maður gleðst yfir framkomu þessa frumvarps og þakkar hæstv. forsætisráðherra fyrir framlagningu þess get ég ekki annað en harmað að leggja þurfi slíkt frumvarp fram og ég harma þá meðferð ungmenna sem viðgekkst hér á árum áður. Því miður þurfum við kannski að horfast í augu við að það gerist enn á þeim heimilum og stofnunum sem hér eru til umræðu. Mér finnst, jafnvel þó að það sé rétt að fjármagn muni aldrei koma í staðinn fyrir það sálarböl og það líkamlega böl sem þessi ungmenni urðu fyrir, að það sé ákveðin táknræn sanngirnisbót. Sú afsökunarbeiðni sem komið hefur fram frá hendi hæstv. forsætisráðherra fyrir hönd íslensku þjóðarinnar er ekki síður táknræn til þess að viðurkenna í auðmýkt að þarna gerðust atburðir sem hefðu aldrei átt að gerast.

Mig langar aðeins til þess að ræða um hvernig við getum lært af þessari reynslu. Mér finnst í þeirri pólitík sem viðgekkst í meðferð ungmenna á þessum tímum felast mikið virðingarleysi fyrir þeim sem minna máttu sín. Það birtist mjög gjarnan í því að þau voru fjarlægð af vettvangi. Jafnvel þó að þetta væru saklaus börn og ekkert væri að þeim, þau hefðu fulla greind, þau bjuggu bara við erfiðar aðstæður og þá þótti best að fjarlægja þau bara af vettvangi. Þau voru svona svolítið eins og óhreinu börnin hennar Evu.

Mig langar til þess að undirstrika það mjög að það að safna saman einstaklingum sem búa við fötlun eða hafa lifað erfiðar aðstæður, jafnvel bara það að hafa átt fátæka foreldra, það að safna þeim saman á einn stað, jafnvel fjarri alfaraleið, getur komið af stað lokaðri atburðarás sem er afar erfitt að stjórna og það sýna dæmin því miður á fleiri stöðum en í Breiðavík. Allar rannsóknir sýna að það er almennt best að stunda ekki aðskilnað þeirra sem búa við fötlun vegna ýmissa atriða eða vegna erfiðra aðstæðna, við eigum miklu frekar að byggja upp meðferð í eigin umhverfi. Með því sýnum við þessum einstaklingum virðingu. Þó að einhver falli ekki nákvæmlega inn í normið er ekki eðlilegt að fjarlægja hann af vettvangi, hann á að fá að búa í sínu umhverfi og fá þann stuðning sem hann þarf. Það kostar að sjálfsögðu dálitla peninga en ég leyfi mér að halda því fram að það að fá meðferð í eigin umhverfi stuðli líka að virkni í því sama umhverfi og mun þannig til langs tíma kosta samfélagið miklu minna.

Ég legg mikla áherslu á þetta með virðinguna. Við eigum að sýna öllum einstaklingum í íslensku samfélagi virðingu og við sýnum þeim virðingu með því að leyfa þeim að vera áfram í sínum aðstæðum en ekki að fjarlægja þá. Auðvitað getur komið upp eitt og eitt dæmi þannig að það sé nauðsynlegt að vista einstakling á stofnun eða annað slíkt en fyrst og fremst eigum við að gera það heima fyrir.

Það er líka mjög gott fyrir samfélagið í heild sinni að upplifa að það eru ekki allir eins. Þeir sem eru öðruvísi eru ekki fjarlægðir úr sínu umhverfi heldur reynum við að aðlaga það að þeim þannig að þeir sem ekki búa við fötlun og ekki búa við erfiðar heimilisaðstæður upplifi það að lífið er fjölbreytt og mannlífið er fjölbreytt.

Mig langar til þess að árétta mikilvægi þess að við gleymum aldrei sögunni sem býr að baki þessu frumvarpi. Söfnum ekki ungmennum saman á einn stað þar sem til verður einhver atburðarás sem við getum ekki ráðið við, vinnum fyrst og fremst markvisst að því að aðlaga lífið að þessu fólki og höfum samfélagið sem mest án aðgreiningar.