138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[11:51]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að það sé mjög mörgu við þetta að bæta. Ég get ekki sett mig í spor þess fólks sem var á þessum stofnunum og ég get ekki ímyndað mér hvernig það hefur verið að dvelja þar. Mér finnst mjög fáu við umræðuna að bæta.

Þetta frumvarp sem hér er er tilkomið vegna þeirra atburða sem þarna urðu. Þetta frumvarp mun fara til allsherjarnefndar þar sem ég sit og ég mun ásamt öðrum fulltrúum í allsherjarnefnd fara rækilega yfir það. Við munum finna leiðir til að loka þeim kafla sem þessi heimili opnuðu því miður og þau skildu eftir sig sár hjá fólki. Við munum fara yfir þetta mál rækilega og vanda okkur við það og vonandi tekst okkur fyrr en seinna að gera upp við þessa fortíð, loka þessari bók og halda áfram. Ég vonast til þess að ekkert okkar muni nokkurn tíma þurfa aftur hér í þessum stól eða hér í þessu þjóðfélagi og takast á við þær sorgir sem þetta frumvarp er byggt á.