138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[12:03]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er mjög mikilvægt mál sem við erum með hér til umfjöllunar og er við hæfi að rifja aðeins upp forsöguna. Í febrúar 2007 varð talsverð umfjöllun í fjölmiðlum um svokallað Breiðavíkurmál og í kjölfarið ákvað ríkisstjórnin að láta fara fram rannsókn á því hvernig rekstri þessa heimilis var háttað á árabilinu 1950–1980 og það var gert. Þann 13. febrúar 2007 tók ríkisstjórnin þessa ákvörðun. Það eru um það bil þrjú ár síðan, virðulegur forseti, og menn geta spurt sig: Er þetta langur tími eða er þetta stuttur tími frá því að þessi umfjöllun öll kom upp á yfirborðið og þangað til við ræðum nú frumvarp um að loka þessum erfiða kafla?

Ég hallast að því að þetta sé ekki mjög langur tími í ljósi þess hversu flókið málið er og hvað verið er að stíga hér mikil skref frá því sem gengur og gerist samkvæmt lagaumhverfinu. Það er verið að fara hér umfram skyldu, það á að fara að borga út bætur umfram skyldu og er sátt um það. Það tekur auðvitað tíma að fara yfir svona mál. Ég hallast því að því að við klárum þetta mál á tiltölulega stuttum tíma þó að ég viti að aðilum málsins þyki þetta langur tími og þyki löngu vera kominn tími til að ljúka því. Eðli málsins samkvæmt hlaut þetta að taka svolítinn tíma og hér stöndum við þannig að ég hallast því að segja að okkur hafi tekist vel upp með að koma þessu máli í höfn þrátt fyrir allt.

Í kjölfarið lagði þáverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde fram frumvarp á Alþingi eftir að búið var að skoða Breiðavíkurmálið sérstaklega. Það var frumvarp um að gerð yrði rannsókn á heimilinu. Síðan var sett upp nefnd undir formennsku Róberts R. Spanós prófessors sem vann skipulega að því að kanna tiltekin heimili og stofnanir sem féllu undir lögin og við þekkjum þá sögu. Nefndin lauk störfum. Þessi rannsókn er áfangaskipt. Fyrst var vistheimilið Breiðavík skoðað, svo Heyrnleysingjaskólinn, þá vistheimilið Kumbaravogur og skólaheimilið Bjarg. Skýrslan um Breiðavík var afhent í ársbyrjun 2008 og var skýrslu skilað haustið 2009 um hin heimilin. Núna í sumar á að afhenda forsætisráðherra skýrslu um vistheimilið í Reykjahlíð, vistheimilið Silungapoll og heimavistarskólann Jaðar og 15. apríl 2011 á að skila skýrslu varðandi Upptökuheimili ríkisins og Unglingaheimili ríkisins, þannig að verið er að skoða hér fjöldann allan af heimilum.

Meginreglan er sú að skaðabótakröfur fyrnast á tíu árum og Viðar Már Matthíasson prófessor hefur kannað það alveg sérstaklega. Að mati Viðars Más í greinargerðinni kemur fram að það er nánast útilokað að kröfur um skaðabætur vegna háttsemi sem viðhöfð var fyrir árslok 1979 séu ekki fyrndar, þ.e. að þær eru í reynd fyrndar. Í álitsgerð sinni nefnir Viðar Már tvær færar meginleiðir ef ríkið hyggst veita þeim skaðabætur umfram skyldu sem urðu fyrir tjóni vegna dvalar í Breiðavík. Það væri annars vegar hægt að gera það í hverju máli fyrir sig eða að setja svokallaðar almennar reglur. Það er því alveg ljóst að við höfum valið að leysa þetta mál umfram skyldu og ég tel að það sé mjög réttmætt í ljósi þess hvað átti sér stað á þessu heimili og öðrum heimilum á þessum tíma. Aðalatriðið er að setja fram gegnsæjar reglur um skilyrði til skaðabóta og hvernig fjárhæð þeirra er ákvörðuð. Ég tel að í frumvarpinu séu þessar reglur gegnsæjar og eðlilegar þannig að mér finnst það vel úr garði gert.

Það er líka búið að koma inn á það hér, virðulegur forseti, að forsætisráðherra tók málið upp á þinginu og baðst afsökunar fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og íslenskra stjórnvalda. Hún bað fyrrverandi vistmenn í Breiðavíkurheimilinu og fjölskyldur þeirra afsökunar á þeirri ómannúðlegu meðferð sem þeir voru látnir sæta og kom því þar á framfæri að ekki væri hægt að ætlast til þess að slík fyrirgefning væri veitt nema þessi kafli í sögu íslenskra barnaverndarmála væri gerður upp. Ég er algjörlega sammála því. Nú erum við að gera upp þennan kafla með því að koma þessu frumvarpi í höfn. Þá er hægt að fara að borga bætur þó að það sé auðvitað aldrei hægt að greiða fyrir skaðann í krónum og aurum, það er ekki hægt. Þetta er þó viðleitni til að loka þessum vonda kafla.

Í kostnaðarumsögn með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinum sérstökum útgjöldum, engin tiltekin upphæð á fara í þetta enda er mjög flókið að reikna þetta út. En ég treysti á það í ljósi þess að hér er mikil samstaða um þetta mál að stjórnvöld geti greitt út bætur án teljandi vandræða og kvíði því ekki.

Á sínum tíma þegar skýrslan um Breiðavíkurmálið kom út var sú er hér stendur í allsherjarnefnd og skoðaði þá skýrslu. Það kom mér á óvart hvað hún var umfangsmikil og nákvæm. Það var engin skemmri skírn á þeirri skýrslu. Það var mjög vandað plagg og hafði verið lögð mikil vinna við að reyna að gera þetta mál upp. Það sem mér fannst sérstakt var að sjá í skýrslunni hvað sérfræðingar höfðu varað við því ítrekað inni í kerfinu að setja upp heimili svona fjarri faglegri kunnáttu. En það var ekki hlustað á það og það er svolítið sárt að lesa hvernig kerfið brást gagnvart því að hlusta á fagaðila. Sérfræðingar vöruðu við þessu og bentu á hvað gæti farið úrskeiðis og það gekk allt eftir, því miður, sem gat farið úrskeiðis. Þarna varð því til einhvers konar samfélag sem réð ekki við þetta mál, mjög miklu ofbeldi var beitt. En ég vil þó setja þann fyrirvara þegar við ræðum þessi mál að það er mjög erfitt að dæma harkalega aftur í tímann en þó erum við öll sammála um að þarna sættu börn ómannúðlegri meðferð, aðstæður voru ómannúðlegar gagnvart þeim börnum sem þarna voru vistuð.

Hér hafa ýmsir þingmenn farið að lýsa því hvernig þeir hafa sjálfir lent í ofbeldi og líklega skilja þeir hv. þingmenn kannski betur tilfinningar þeirra sem þarna voru vistaðir á sínum tíma. Sú er hér stendur er að reyna að gera sér í hugarlund hvernig það hafi verið. Ég held að það sé eiginlega ekki hægt og get upplýst að ég hef aldrei orðið fyrir ofbeldi af þessu tagi, ég tuskaðist einu sinni á við einhver strák í gaggó sem kýldi mig í andlitið og ég fékk glóðarauga en þá er það líka upptalið og er ekki hægt að jafna því á nokkurn hátt við það sem vistmennirnir á þessum heimilum hafa orðið fyrir. En ég reyni að setja mig í þeirra spor og skil að þetta hefur haft alveg gríðarlega mikil og neikvæð áhrif á líf þeirra. Nú er um að gera að loka þessum vonda kafla eins og hægt er af hálfu stjórnvalda og sú er hér stendur mun reyna að greiða fyrir þessu máli. Ég get lýst því yfir að Framsóknarflokkurinn er ánægður með að við sjáum nú til lands í þessu og þrátt fyrir að þetta hafi tekið þrjú ár tel ég að þetta sé ekki langur tími.

Ég vil líka halda því til haga að ég tel að stjórnvöld, bæði núverandi stjórnvöld og fyrrverandi stjórnvöld, hafi reynt að þoka þessum málum eins mikið í áttina og á eins skömmum tíma og hægt var þannig að við getum öll verið stolt af því að við klárum þetta mál vonandi eftir örfáar vikur.