138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[12:16]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp sem byggt er á skýrslu kenndri við Breiðavík. Við ræðum hér skýrslu um fólk, um börn og unglinga sem vistuð voru af hinu opinbera fjarri heimahögum í umhverfi ókunnugra. Það er trú mín og von að sú skýrsla verði til þess að barnaverndarlöggjöfin verði í þá veru að barni sé best borgið í faðmi fjölskyldunnar. Ég vona að það verði skylda þeirra sem fjalla um mál fjölskyldunnar að styrkja fjölskylduna í erfiðum aðstæðum í stað þess að splundra henni eins og gert hefur verið áratugum saman í íslensku samfélagi.

Það hefur verið lenska að fjarlægja börn af heimilum ef aðstæður eru erfiðar hjá foreldrum. Það hefur líka verið lenska að taka barn af heimili ef það sjálft á í einhverjum vandræðum. Þetta er lenska enn þann dag í dag og því er það von mín að barnaverndarlöggjöfin verði endurskoðuð með það í huga að réttur barns til að vera í sínu nánasta umhverfi, vera innan um sitt fólk, vera í sinni fjölskyldu, í því umhverfi sem það þekkir best — að það muni ráða för þegar illa árar. Það eru bestu og mestu bætur sem við sem hér sitjum getum veitt börnum framtíðarinnar.

Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað og þakka hæstv. forsætisráðherra og öðrum þeim sem komið hafa að þessum málum fyrir þeirra framgöngu. Ég vil líka sem fyrrverandi kennari og skólastjóri og þingmaður í dag taka undir afsökunarbeiðni til allra þeirra sem hafa verið vistaðir með þessum hætti og hafa þurft að standa frammi fyrir þeirri þolraun sem það hlýtur að hafa verið.

Fyrst og síðast snýst þetta um fólk. Í dægurlagatexta segir: Það þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig. Þetta þýðir einfaldlega að manneskjan í okkur eigi að ráða för umfram allt annað, manneskjan og mannúðin. Okkur verður tíðrætt um fjölskylduna sem hornstein samfélagsins á hátíðarstundum. Látum hana alltaf vera hornstein þjóðfélagsins. Virðum börnin okkar og börn annarra og virðum mannréttindi þess einstaklings sem lendir í erfiðleikum, hvort heldur er vegna sinna eigin erfiðleika eða annarra, að fá að vera í skjóli þeirra sem hann þekkir best. Skoðum barnaverndarlögin, skoðum lög sem snerta fjölskyldur, skoðum það sem að okkur snýr til þess að þingmenn framtíðarinnar þurfi aldrei að standa í þeim sporum sem þingmenn standa nú í. Sýnum kjark til að fara í gegnum lögin svo að koma megi í veg fyrir að í náinni framtíð fáum við aðra skýrslu líka þeirri sem við höfum nú í höndunum. Það þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig. Við getum aldrei staðið ein.