138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[12:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég er komin í þennan stól til að taka undir þakklæti til hæstv. forsætisráðherra sem hóf strax og hún tók við því þýðingarmikla embætti að leita leiða til þess að leysa þetta erfiða og sársaukafulla mál og hefur nú lokið því með sanngirni og með sóma eins og hv. þm. Þór Saari komst að orði.

Það er mikilvægt, frú forseti, að við lærum af þessu máli. Mig langar til að nefna hér þrjú atriði í því sambandi, nokkuð af því hefur áður komið fram. Hlutverk okkar þingmanna er vissulega að tryggja með löggjöf að ekkert þessu líkt geti gerst aftur á Íslandi. En við þekkjum af reynslunni að ekki er nóg að setja lög og reglur. Við þurfum að breyta stefnu varðandi alla aðstoð, umönnun og meðferð barna. Við þurfum að beina henni út af stofnunum og heim. Við þurfum að styrkja einstaklinginn í eigin umhverfi, í umhverfi fjölskyldu sinnar, síns skóla, heima í sínu héraði, það er affarasælast.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna hér, og bar á góma við upphaf þessarar umræðu, snýr að eftirliti með slíkri þjónustu, eftirliti með allri þjónustu gagnvart þeim varnarlausustu, sem eru börn, sjúklingar og aldraðir. Þetta eftirlit þurfum við að efla og fara skipulega í gegnum því að þar er pottur brotinn, við skulum bara viðurkenna það hér á þessari stundu.

Við ræðum hér Breiðavík, við skulum muna eftir Byrginu. Það er mjög mikilvægt að setja á stofn að norrænni fyrirmynd eina öfluga eftirlitsstofnun með allri velferðarþjónustu. Við höfum öflugt eftirlit með gæðum heilbrigðisþjónustunnar á vegum landlæknisembættisins. Það stendur til, og er unnið að því, að efla það eftirlit enn frekar með því að sameina það embætti Lýðheilsustöð og búa til stjórnsýslustofnun lýðheilsu og velferðar. Það, frú forseti, gæti verið fyrsta skrefið í þá átt að tryggja að þjónusta, aðstoð, umönnun við einstaklinga, sem lýtur ekki að skilgreindum sjúkdómum sem menn bera utan á sér heldur einnig að því sem hrjáir einstaklinginn og mótar aðstæður hans, án þess að það sé hægt að setja á það plástur, eins og sagt er — að eftirlit með allri slíkri starfsemi sé jafnskipulegt og jafnmarkvisst og við þekkjum það í heilbrigðisþjónustunni.

Þetta var erindi mitt hingað í ræðustól, frú forseti. Ég vil þakka fyrir þann áfanga sem næst með því að fá þetta mál hér inn með þessum hætti.