138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[12:24]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir með öllum þeim þingmönnum sem hafa talað í dag og færa hæstv. forsætisráðherra sérstakar þakkir fyrir sköruglega framgöngu hennar í þessu máli. Ég vil þakka ríkisstjórninni og þingheimi fyrir það sem hér er að gerast í dag, fyrir þetta frumvarp. Ég vil líka taka undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og benda sérstaklega á áhrifaríkar ræður hv. þingmanna Þórs Saaris og Þráins Bertelssonar en að auki benda á, eins og ýmsir hafa gert hér í dag, hvað allir eru sammála um þetta mál. Hér er þingheimur að sameinast þvert á flokka, sameinast sem manneskjur til að sýna vilja og tryggja að svona gerist ekki aftur.

Eins og við vitum öll munu peningar aldrei geta bætt fyrir ólíðandi sársauka og órétt, ofbeldi og yfirgang, allra síst í æsku, en það er hægt að biðjast afsökunar í verki og sýna iðrun og sýna yfirbót. Sú yfirbót er skýrust þegar hún vill tryggja að þetta sé liðin tíð og þetta muni ekki gerast aftur í samfélagi okkar. Margir þingmenn hér í dag hafa einmitt bent á leiðir til þess, hvernig við ætlum að læra af þessu. Það er árangur í sjálfu sér og hverjum er sá árangur að þakka? Ekki stjórnvöldum, heldur þeim fórnarlömbum, þeim einstaklingum, sem með hetjulegri framgöngu sinni þorðu að stíga fram og segja sársaukafulla sögu sína, sögðu okkur hinum frá áþján sinni. Þetta er þeirra árangur hér í dag, árangur sem skilar ekki bara þeim hinum sömu einstaklingum afsökunarbeiðni og loforði um yfirbót heldur öllum hinum líka og framtíðinni. Þetta er þeirra árangur og fyrir það stöndum við og samfélagið allt í þakkarskuld. Takk fyrir að koma fram og hjálpa okkur að tryggja að svona gerist ekki aftur.

Það er sérstök stund þegar þingheimur sameinast og það er mikilvægt í svona manneskjulegum málum. Ég treysti því og trúi að þetta mál fái farsæla meðferð og hraða hér í þinginu þar sem við getum sameinast um að sýna iðrun, sýna yfirbót, biðja afsökunar í verki og hjálpast að við að búa til betra samfélag þar sem hlutir af þessu tagi gerast ekki.